Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær er von á niðurstöðu í sameiningarmálum Haga og Olís annars vegar og N1 og Festar hins vegar á næstu vikum. Þá telur Eggert B. Ólafsson, lögmaður og sérfræðingur í samkeppnisrétti, ólíklegt að að fyrirhugaðar sameiningar Haga og Olís annars vegar og N1 og Festar hins vegar verði samþykktar án þess að Samkeppniseftirlitið (SKE) setji frekari skilyrði við þær tillögur sem fyrirtækin hafa þegar lagt fram.

Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs Samtaka atvinnulífsins, gagnrýnir hve langan tíma samrunamál hjá Samkeppniseftirlitinu taki. Ár er liðið síðan N1 greindi frá kaupunum á Festi og 14 mánuðir síðan skrifað var undir kaupsamning milli eigenda Haga og Olís. N1 greindi frá því fyrir síðustu mánaðamót að vegna tímafrests í kaupsamningi milli N1 og Festar kunni að verða breytingar á kaupsamningnum áður en rannsókn Samkeppniseftirlitsins ljúki.  „Það er algjörlega óásættanlegt hvað það tekur langan tíma fyrir Samkeppniseftirlitið að klára mál. Það er erfitt fyrir menn að standa í rekstri með svona hluti hangandi yfir sér. Menn eru ekki jafn vel í stakk búnir að gera langtímaplön og halda áfram með eðlilegan rekstur,“ segir Davíð

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir ekki við eftirlitið að sakast hve langan tíma málin hafi tekið enda hafi fyrirtækin sjálf ákveðið að draga samrunatilkynningar til baka skömmu áður en birta átti ákvörðun í málinu. „Það liggur fyrir að við vorum reiðubúin að taka ákvörðun í málinu innan þeirra fresta sem við höfum lögum samkvæmt og þeir eru býsna knappir í málum af þessu tagi sem krefjast töluverðrar rannsóknar. En það var val  fyrirtækjanna  í hvoru tilviki fyrir sig að draga tilkynningarnar til baka og leggja fram nýjar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .