Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, gagnrýnir orð Gylfa Magnússonar, dósents í hagfræði og formaður bankaráðs Seðlabankans, um gagnaver í gær . Gylfi telur það sóun að 5% af raforkunotkun Íslendinga færi undir gagnaver sem fyrst og fremst væru notkuð til að grafa eftir rafmyntum, sér í lagi Bitcoin.

Sigríður segir viðskiptavinir íslenskra gagnavera mun fjölbreyttari hóp en ætla mætti af orðum Gylfa. „Vöxtur gagnaversiðnaðarins í dag byggir ekki á Bitcoin viðskiptavinum og hlutur þeirra í heildarstarfseminni er sífellt að minnka,“ segir Sigríður. Í skýrslu KPMG um gagnversiðnaðinn sem kom út í mars 2018 var bent á að í árslok 2017 hafi 90% af raforkunotkun gagnavera verið í tengslum við vinnslu rafmynta.

„Uppbygging gagnaversiðnaðarins á Íslandi er mikilvæg til framtíðar litið enda eru gögn og vinnsla þeirra að taka sífellt meira pláss í viðskiptum og spila stórt hlutverk í fjórðu iðnbyltingunni. Við verðum að horfa lengra fram í tímann og grípa þau tækifæri sem eru til staðar til að byggja undir framtíðarverðmætasköpun hér á landi,“ segir Sigríður. Hugmyndafræðin á bak við aukna raforkusölu til gagnavera sé að auka fjölbreytileika raforkukaupenda hér á landi.

Horfa megi til hvaða stefnu nágrannalönd Íslands hafi mótað þegar kemur að gagnaverum. „Norsk stjórnvöld hafa markað stefnu um það að laða til landsins gagnaver og stækka gagnaversiðnaðinn með markvissum aðgerðum þar sem hann þykir ákjósanlegur til framtíðar litið, meðal annars með tilliti til samkeppnishæfni landsins,“ segir hún.

Þá sé ekki rétt að tala einungis um Bitcoin enda séu um 1600 rafmyntir til í heiminum. „Grundvöllur þeirra er svokölluð bálkakeðjutækni sem er að ryðja sér til rúms hægt og bítandi og mun ef spár ganga eftir umbreyta því hvernig viðskipti eru stunduð.“