Þór Heiðar Ásgeirsson, forstöðumaður Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna. MYND/GB
Þór Heiðar Ásgeirsson, forstöðumaður Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna. MYND/GB
Þór Heiðar Ásgeirsson forstöðumaður Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna, segist ekki sjá að Samherjamálið hafi áhrif á skólann á þessu stigi málsins að því er fram kemur í ítarlegu viðtali í Fiskifréttum sem kom út í morgun, en hann er miður sín yfir stöðunni sem komin er upp vegna ásakana á hendur Samherja í einu af samstarfslöndum skólans.

„[T]rúverðugleiki okkar gæti skaðast. Það á eftir að rannsaka þetta mál og það lítur ekki vel út. En Sjávarútvegsskólinn er staðfastur í því að byggja upp faglega færni í sjávarútvegi hjá lykilfagfólki í okkar samstarfslöndum,” segir Þór Heiðar, en skólinn hefur starfað hér á landi í tvo áratugi.

„Hins vegar verðum við líka að halda því á lofti að Samherji hefur sem og iðnaðurinn allur reynst okkur mjög vel í gegnum tíðina. Þess vegna er maður miður sín og undrandi yfir stöðunni.”

Þór Heiðar segir skólann hafa lagt mikla áherslu á gagnsæi. „Gagnsæið vinnur gegn spillingu,“ segir Þór Heiðar.„[Nemendurnir] fá að fara inn fjölda fyrirtækja og sjá samvinnuna milli rannskóknastofnana, háskólaumhverfisins og stjórnsýslunnar. Þetta sést ekki víða og þetta er eitt af því sem þeir taka heim með sér.”

Í skólann koma nemendur frá þróunarlöndum í sex mánaða þjálfunar, þar á meðal frá Namibíu sem sendi fyrsta nemendann árið 1999. Eins og fjallað hefur verið ítarlega um í fréttum er Samherji sakað um að hafa beitt mútum til að ná undir sig kvóta í landinu og nágrannaríkjum.

„Við höfum verið með nemendur frá Namibíu nánast frá fyrsta degi og tengdist það þróunaraðstoð Íslands við Namibíu á sínum tíma. Namibía hefur síðan þá verið einn af okkar stærri samstarfsaðilum,” segir Þór, en skólinn tekur þátt í verkefni með ESB til að stuðla að ábyrgum og sjálfbærum veiðum á fjarlægum veiðislóðum, þar á meðal við afríku.

„Þetta eru opinberir samningar og þarna er verið að semja um aðgengi að auðlindum. Það má bera þetta saman við það sem Samherji er að gera sem er ekki mjög gagnsætt.” Nánar má lesa um málið og viðbrögð Matís sem stýrt hefur Evrópuverkefninu FarFish við stöðunni sem nú er komin upp, á vef Fiskifrétta .

Í blaði Fiskifrétta sem kom út í dag kennir ýmissa grasa. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Innskráning á vef blaðsins meðan aðrir geta skráð sig í áskrift hér .