Frestun verður á gangsetningu kísilverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík, en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir að fyrirtækið fengi svæðið afhent í dag og um leið myndi formlegt gangsetningarferli hefjast að því er RÚV greinir frá, en nú er ljóst að seinkun verður á afhendingu.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um fékk verksmiðjan starfsleyfi um miðjan mánuðinn fyrir allt að 66 þúsund tonna framleiðslu á ári. Greint hefur verið frá því að stefnt er að framleiðslu 32 þúsund tonna árlega, en Hafsteinn Viktorsson forstjóri PCC sagði í samtali við Viðskiptablaðið upp úr miðjum október að stefnt yrði að gangsetningu um miðjan desember, þó sú dagsetning væri ekki heilög.

Nú er ljóst að gangsetningin getur ekki orðið fyrr en í febrúar, en af þeim fjórum kísilverum sem áætluð voru í landinu upp úr hruni nýtur kísilverið á Bakka mestu ívilnananna frá ríkinu , en samtals nema þær um 9 milljörðum fyrir allar verksmiðjurnar.

Gangsetning gæti tafist undir miðjan febrúar

Verktakafyrirtækið SMS sem sér um uppbyggingu verksmiðjunnar mun ekki geta afhent fyrr en 27. janúar að því er Jökull Gunnarsson framkvæmdastjóri framleiðslu hjá fyrirtækinu segir þó hann viti ekki ástæðu tafanna. Því geti endanleg gangsetning dregist fram undir miðjan febrúar en Jökull segir að félagið hafi gert ráð fyrir að seinkun gæti orðið.

„Þannig að við höfum ákveðinn sveigjanleika gagnvart viðskiptavinum,“ segir Jökull sem segir hugsanlegt að seinka þurfi komu skipa með hráefni sem eiga að koma í janúar og febrúar en nokkuð er síðan hráefni tók að berast. „Þetta hefur náttúrulega þau áhrif að við getum ekki byrjað að framleiða og selja vörur til okkar viðskiptavina á réttum tíma.“