Bill Gates, fjórði ríkasti maður heims, og Melinda French Gates eru formlega skilin eftir að dómari samþykkti skilnað þeirra í gær. CNN greinir frá.

Greint var frá skilnaði þeirra hjóna í byrjun maí á þessu ári, en þau kynntust hjá Microsoft árið 1987 og giftust sjö árum síðar. Í sameiginlegri yfirlýsingu frá því í maí sögðu þau Bill og Melinda að „við teljum ekki að við getum haldið áfram að vaxa sem hjón í næsta kafla lífs okkar“.

Þar sem þau höfðu ekki gert með sér kaupmála verður eignum þeirra hjóna dreift í samræmi við skilnaðarsamning, sem hefur ekki enn verið opinberaður. Ljóst er að um gífurlega háar fjárhæðir er að ræða, en Bill Gates, sem var ríkasti maður heims í hartnær 20 ár, er metinn á um 150 milljarða dollara, eða hátt í 19 þúsund milljarða króna.

Sjá einnig: Mikið í húfi í skilnaði Gates hjóna

Áður hefur verið greint frá því að Melinda hafi frá árinu 2019 reynt að vinda ofan af hjónabandinu. Greint hefur verið frá framhjáhaldi Bill við starfsmann Microsoft snemma á 21. öldinni og þá hefur hann einnig verið sakaður um kynferðislega áreitni og óviðeigandi hegðun á vinnustað. Þá hefur einnig verið sett spurningarmerki við vináttu hans við barnaníðinginn Jeffrey Epstein .