Bílaleigufyrirtækið Hertz lagði inn beiðni til Verðbréfa og kaupþingsnefnd Bandaríkjanna (SEC) í morgun um hlutafjárútboð að andvirði 500 milljónum dollara. Bílaleigufyrirtækið varaði þó fjárfesta við að hið nýja hlutafé gæti orðið verðlaust eftir að gjaldþrotameðferð lýkur, samkvæmt grein Marketwatch . Hlutabréf Hertz féllu um 20% á formarkaði í morgun eftir tilkynninguna.

Bílaleigufyrirtækið Hertz fékk á föstudaginn leyfi frá skiptarétti í Bandaríkjunum fyrir hlutabréfaútboði að andvirði allt að einum milljarði Bandaríkjadala.

„Kostnaðurinn [af sölu hlutafjár] er töluvert lægri en af láni og peningarnir sem streyma inn fara beint inn í virði fyrirtækisins,“ er haft eftir Mary Walrath, dómara við skiptarétts í Delaware, í frétt Financial Times .

Sjá einnig: Veðja á fyrirtæki í greiðslustöðvun

Yfirleitt leita fyrirtæki í greiðslustöfun í lán fremur en sölu hlutafjár þar sem verð hlutabréfa þeirra er að jafnaði mjög lágt.

„Hækkun hlutafjárins er óskiljanlegt að mínu mati,“ hafði FT eftir David Skeel, prófessor í skiptarétti við háskólann í Pennsylvania. „Ég hef aldrei heyrt um fyrirtæki sem selur meira hlutafé í miðju gjaldþrotamáli. Þetta virðist vera umbúðalaus brella til þess að nýta sér óskynsamlegar hreyfingar á markaðinum.“

Í tilkynningu sem FT fékk frá Tom Lauria, lögmanni Hertz, segir: „Í gegnum árvekni og sköpunargáfu hefur Hertz nú tækifæri til þess að bæta stöðu sína. Ef þetta reynist árangursríkt, þá gæti fyrirtækið styrkt efnahagsreikning sinn með því að færa sér í nyt þær ótrúlegu aðstæður sem hafa komið upp í kjölfar útbreiðslu Covid.“