Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur hafa verið mikið í fréttum upp á síðkastið vegna fregna um að hugsanlega þurfi að rífa vesturhúsið. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem höfuðstöðvarnar eru í fréttum.

Allt frá því ákvörðun var tekin um byggja nýjar höfuðstöðvar árið 1999 hefur húsið við Bæjarháls verið umdeilt. Fjölmiðlar fjölluðu mjög ítarlega um málið á sínum tíma enda fór kostnaðurinn við framkvæmdirnar langt fram úr áætlunum og hvergi var sparað.

Árið 2012 var birt skýrsla úttektarnefndar um Orkuveitu Reykjavíkur. Í henni kemur fram að árið 2010 hafi heildarkostnaður við framkvæmdina verið tæplega 8,5 milljarðar króna. Á verðlagi dagsins í dag jafngildir það um 10,3 milljörðum.

Ólafur Jónsson, lögfræðingur og fyrrverandi ritari stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, skefur ekki utan af hlutunum í skýrslu úttektarnefndarinnar. Talað hann um „gegndarlausa sóun og sukk" hjá fyrirtækinu. Sagði hann meðal annars þetta:

Gott dæmi eru höfuðstöðvarnar að Bæjarhálsi. Þetta er hvorki traust né gott hús auk þess sem það var gríðarlega dýrt. Einnig vantaði ákveðnari stjórn, meiri formfestu og stefnumörkun eigenda. Það var eins og tekin væri fjöl úr botninum á peningakassa. Það var gegndarlaust sem lak út.

Svo er það sem ég vil kalla hönnunarslys, í kjallaranum er skjalageymsla. Þegar maður kemur inn í þetta virðist það vera alveg drauma skjalageymsla. Þar varðveitast nauðsynlegir  pappírar, alveg út í það óendanlega. Ég fékk nánast áfall einu sinni, vegna þess að hún fór að leka. Snjóbræðslukerfið úr bílastæðinu sem er vestan við húsið, stýrikerfið að því er inni í skjalageymslunni, og byrjaði að leka. Fullt af svona hlutum komu upp og þá var maður auðvitað kannski kominn að því spyrja hver andskotinn var að gerast á stýrifundum[byggingarstjórnar]?

Ég veit ekki hvort þið vitið að síðan var þannig að þegar átti að flytja inn á ákveðnum degi hafði parket verið lagt á gólfin hráblaut. Það mátti ekki fresta opnun hússins. Þannig að það þurfti að skipta um öll parket á öllum gólfum. Þetta voru eins og fjallgarðar, eins og Alpafjöll bara. Nema í mötuneytinu, þar var skipt tvisvar. Í annað skiptið var ekki nægilega vel gengið frá úðarakerfi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .