Gengi hlutabréfa General Electric féll um rúm 5% við opnun markaða í Bandaríkjunum eftir að fyrirtækið greindi frá því að hagnaður á öðrum ársfjórðungi hafi dregist saman um 57%. Samkvæmt frétt BBC er samdrátturinn rakinn til verri árangurs í olíu- og samgöngudeildum fyrirtækisins.

Lækkunin hefur þó gengið að einhverju leyti til baka og stendur gengi bréfa félagsins nú í 25,92 dollurum á hlut sem er 2,88% lækkun miðað við lokun markaða í gær.

Jeffrey Immelt fráfarandi forstjóri fyrirtækisins sagði fyrirtækið starfa í óstöðugu hægvaxtaumhverfi. Bætti hann því við að áætlanir fyrirtækisins um að skera niður kostnað ættu að verða til þess að það nái hagnaðarmarkmiðum fyrir árið 2017.