Gengi bréfa Boeing flugvélaframleiðandans hefur hækkað um 8,42%, upp í 103 dali, þegar þetta er skrifað það sem af er viðskiptadegi í Bandaríkjunum. Félagið hefur þó tilkynnt um stöðvun starfsemi í einni verksmiðju vegna kórónuveirusmits.

Lægst fór gengið niður í 89 dali í síðustu viku, en hækkaði á ný í lok vikunnar og endaði í 95,01 dali, sem er 72% lækkun síðastliðinn mánuðinn. Fyrir helgi tilkynnti félagið að það hefði hætt við arðgreiðslur og endurkaupaáætlanir sínar auk þess að bæði forstjórinn og stjórnarformaðurinn hefðu tekið á sig launalækkun.

Gengishækkun Boeing nú er er hins vegar rakin til þess að greinendur hjá Goldman Sachs tilkynntu að bréfin hefðu fallið nógu langt til þess að réttlæta kaup, og nam hækkunin fyrst í morgun 6,5%, þó hún hafi farið seinna niður í 3,2%. Samkvæmt greinendunum er rétt verðmat bréfa félagsins 173 Bandaríkjadalir.

Samkvæmt greiningunni sé búið að verðleggja allar slæmu fréttirnar inn í gengið, samkvæmt umfjöllun Fool.com um stöðu félagsins hafa fjárfestar enn áhyggjur af því hvort Boeing geti staðið undir skuldbindingum í gegnum komandi kreppuástand vegna útbreiðslu kórónaveirunnar Covid 19, auk vandræðanna með Max vélarnar.

Greinendur Goldman eru þó á því að ferðalög með flugvélum verði jafnvinsæl og áður eftir að útbreiðslan hefur verið stöðvuð, og að félagið muni lifa niðursveifluna af. Það án þess að afhenda eina einustu Boeing 737 Max vél fyrr en fjórða ársfjórðungi þessa árs.

Reikna greinendurnir með að það dugi félaginu til að komast í gegnum mjög neikvætt sjóðsstreymi að eiga 10 milljarða dala í handbæru fé, sem og að hafa tekið 13,8 milljarða dala í lán auk 4,6 milljarðar dala sem spöruðust við að hætta við arðgreiðslur.

Þvert á móti geti staða félagsins orðið mjög jákvæð ef ferðabönnum verði aflétt, ef bandarísk stjórnvöld grípa inn í og aðstoða félagið, og eða til bandaríska flugvélaiðnaðarins. Jafnframt séu líkur á að flugmálayfirvöld muni heimila Boeing 737 Max vélunum að fljúga á ný í millitíðinni.