Fregnir gærkvöldsins um að Icelandair hafi gengið frá samkomulagi við fjárfestingasjóðinn Bain Capital um kaup á 16,6% hlut í félaginu fyrir ríflega 8 milljarða króna, virðast hafa haft jákvæð áhrif á gengi hlutabréfa flugfélagsins. Í fyrstu viðskiptum dagsins hefur gengi flugfélagsins hækkað um 13,7% og nemur gengi bréfanna því 1,66 krónum á hlut.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gærkvöldi er Bain Capital alþjóðlegur fjárfestingasjóður með starfsemi í fjórum heimsálfum, hefur yfir 1.200 starfsmenn og er eignasafn hans metið á um 130 milljarða Bandaríkjadala.

Félagið var stofnað árið 1984 af þremur meðeigendum Stjórnendaráðgjafarfyrirtækisins Bain & Company, þar á meðal bandaríska öldungadeildarþingmanninum og fyrrverandi forsetaframbjóðandi Repúblikana Mitt Romney. Hann fékk að leiða fjárfestingafélagið og gerði það að einu stærsta fjárfestingafélagi í heimi.

Romney sagði sig frá Bain í byrjun árs 2002 og seldi hlut sinn en samdi um að fá áfram hlutdeild að hagnaði frá rúmlega 20 sjóðum í stýringu hjá Bain Capital sem skilaði honum milljónir dala árlega.