Gengi hlutabréfa Haga hefur lækkað um 5,72% þegar þetta er skrifað, í 369 milljón króna viðskiptum. Nokkuð flökt hefur verið á gengi hlutabréfa félagsins. 20 mínútum eftir opnun markaða hafði gengi hlutabréfa félagsins lækkað um 9,7%. Gengi hlutabréfa félagsins hefur lækkað um tæplega 30% frá opnun Costco, miðað við gengi bréfa félagsins þegar þetta er ritað. Gengi bréfa Haga er nú 38,75 krónur.

Í gær sendi félagið frá sér afkomuviðvörun , þar sem fram kom að sala Haga hafi dregist saman um 8,5% í júní vegna breyttrar markaðsstöðu og sömuleiðis að ljóst væri að aukin samkeppni myndi hafa áhrif á afkomu Haga á öðrum ársfjórðungi.

Önnur félög hafa sömuleiðis lækkað það sem af er morgni. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,54% þegar þetta er skrifað. Gengi hlutabréfa VÍS hefur lækkað um 3,1% í 165 milljón króna viðskiptum. Einnig hefur gengi hlutabréfa Sjóvá lækkað um 2,2% og N1 um 2,14% þegar þetta er ritað.