Gengi hlutabréfa Netflix hríðféll við opnun markaða í dag og hefur lækkað um tæp 25%. Gengið hefur ekki verið svo lágt frá aprílmánuði árið 2020, en Netflix gaf út ársfjórðungsuppgjör í gær, eftir lokun markaða. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times.

Í uppgjörinu varaði Netflix við því að streymisveitan muni einungis bæta við 2,5 milljónum notenda á fyrsta ársfjórðungi þess árs. Það er talsvert frá þeim fjórum milljónum notenda sem bættust í notendahópinn á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. Samkvæmt grein hjá Financial Times bjuggust greiningaraðilar við fjórum milljónum nýjum notenda á fyrsta ársfjórðungi, en sú von er orðin ansi veik.

Streymisveitur eins og Netflix og Disney+ nutu góðs af faraldrinum þegar miklar samkomutakmarkanir og jafnvel útgöngubönn giltu í flestum löndum. Nú þegar fólk er farið að vera minna heima hjá sér lítur út fyrir að notendum Netflix muni ekki fjölga jafn mikið og í hæstu hæðum faraldursins.