Skeljungur og Icelandair hækkuðu mest allra félaga á aðalmarkaði í dag. Heildarvelta á markaði nam 5,7 milljörðum króna og lækkaði úrvalsvísitalan um 0,85% í viðskiptum dagsins.

Gengi hlutabréfa Icelandair hækkaði um 2,58% í dag í 950 milljóna króna viðskiptum. Gengi flugfélagsins var um tíma komið upp í 2 krónur á hlut, en endaði daginn á 1,99 krónum á hlut. Gengi félagsins hefur því tvöfaldast frá hlutafjárútboðinu í september árið 2020 þegar gengið var á 1 krónu á hlut. Mikill fögnuður braust út á samfélagsmiðlum í dag þegar félagið braut tveggja krónu múrinn, eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan sem skemmtikrafturinn Hjálmar Örn Jóhannsson, betur þekktur undir nafninu „Hjammi", birti í dag.

Nokkuð var um lækkanir á aðalmarkaði í dag, en upplýsingafyrirtækið Origo lækkaði mest allra félaga, um 3,55% í 100 milljóna viðskiptum. Marel lækkaði einnig um 2,77% í óverulegum viðskiptum.

Á First North hækkaði gengi flugfélagsins Play um 1,66% í tæplega 190 milljón króna viðskiptum.

Sjá einnig: Gildi selur og Taconic kaupir í Skeljungi

Gengi bréfa Skeljungs hækkaði um 5% í dag, en viðskipti með bréfin námu þremur milljörðum króna. Gildi lífeyrissjóður seldi 8% hlut í Skeljungi fyrir 2,26 milljarða króna. Gildi var fyrir viðskiptin næst stærsti hluthafi félagsins með 10,7% hlut en fer nú með 2,7% hlut. Birta lífeyrissjóður seldi einnig 1,75% hlut fyrir hálfan milljarð.

Auk þess keypti bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital 5% hlut í Skeljungi, en félagið var stærsti hluthafi Arion banki um tíma áður en það seldi sig úr bankanum á fyrri hluta síðasta árs.