Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,4% í 4,4 milljarða veltu í dag. Kviku banki lækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins en gengi bankans féll um 3,2% í 805 milljóna króna veltu í dag og stendur nú í 21,3 krónum á hlut. Gengi kviku hefur fallið um 6,2% í vikunni og um 20% frá áramótum.

Fjögur skráð félög birtu uppgjör í gær; Arion banki, Reginn, Festi og Origo. Næst mesta veltan á íslenska hlutabréfamarkaðnum var með bréf Festi, sem hagnaðist um 465 milljónir á fyrsta fjórðungi , en gengi félagsins stóð óbreytt í 226 krónum í viðskiptum dagsins. Margrét Guðmundsdóttir, sem situr í stjórn félagsins, keypti í dag hlutabréf í félaginu fyrir 10,4 milljónir króna.

Gengi Arion banka lækkaði um 0,7% í 650 milljóna veltu og stendur nú í 168,7 krónum. Arion hagnaðist um 5,8 milljarða á fyrsta fjórðungi og arðsemi eigin fjár var 12,7% á ársgrundvelli.

Hlutabréf Origo, sem hagnaðist um 145 milljónir á fyrsta fjórðungi, hækkuðu um 0,7% í 77 milljóna veltu. Fasteignafélagið Reginn, sem skilaði 1,6 milljarða hagnaði á fyrstu þremur mánuðum ársins, lækkaði um 1,6% en velta með bréf félagsins var þó aðeins um 40 milljónir.