Velta Kauphallarinnar í dag nam 3,9 milljörðum króna en um helmingur veltunnar má rekja til viðskipta með bréf Marels og Regins.

Hlutabréf Marel hækkaðu um 2,7% í rúmlega eins milljarða veltu og standa nú í 725 krónum á hlut. Gengi bréfanna hefur aldrei verið hærra en nú. Reginn hækkaði um 1,45% í 1.071 milljóna króna viðskiptum og standa bréf fasteignafélagsins nú í 17,45 krónum á hlut.

Arion banki hækkaði um 1,95% í 553 milljóna veltu og stóðu bréf bankans í 68,1 krónu við lokun Kauphallarinnar í dag. Þau hafa hækkað um 13,3% frá því mánudaginn í síðustu viku, 15. júní.

Bréf Origo hækkuðu einnig um 1,3% í 237 milljóna króna viðskiptum og standa nú í 31,1 krónu á hlut. Gengi Origo hefur aldrei verið hærra og hefur hækkað um 57% síðan 18. mars síðastliðinn.

Fjarskiptafyrirtækin Síminn og Sýn lækkuðu bæði í dag. Sýn lækkaði mest allra félaga í Kauphöllinni í dag eða um 1,79% í 13 milljóna króna viðskiptum og standa bréf þess nú í 24,8 krónum á hlut. Bréf Símans lækkuðu um 1% í 153 milljóna króna veltu.