Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,25% í tæplega sex milljarða króna veltu í Kauphöllinni í dag. Þrettán félög á aðalmarkaðnum voru rauð í viðskiptum dagsins og fimm græn. Þrátt fyrir rauðan brag á Kauphöllinni þá hækkuðu flugfélögin Icelandair og Play um nærri 2% í dag.

Hlutabréfaverð Play stendur nú í 28 krónum á hlut og hefur hækkað um 40-55% frá útboðsgengi í hlutabréfaútboði félagsins í júní. Þar var útboðsgengið 20 krónur á hlut fyrir tilboð yfir 20 milljónum og 18 krónur fyrir tilboð undir 20 milljónum króna. Hlutabréfagengi Play stóð í 20,5 krónum fyrir tveimur vikum en hefur síðan hækkað 37%. Icelandair hefur á sama tíma hækkað um tæp 12%. Ísland var í dag tekið af rauðum lista Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna í dag og er nú flokkað í þriðja og næsthæsta áhættustig.

Skeljungur hækkaði þó mest allra félaga í Kauphöllinni í dag og gengi félagsins náði sínum hæstu hæðum í 13,8 krónum á hlut. Á morgun fer fram hluthafafundur hjá Skeljungur þar sem hluthafar kjósa meðal annars um að breyta tilgangi félagsins í samþykktum „þannig að aukin áhersla verði lögð á stýringu eignarhluta í rekstrarfélögum og fjárfestingastarfsemi“.

Origo lækkaði um 1,6% í dag, mest allra Kauphallarfélaga. Útgerðarfélögin Brim og Síldarvinnslan ásamt Iceland Seafood lækkuðu öll um meira en 1%.