Úrvalsvísitala Nasdaq Iceland lækkaði um 0,67% í 1,7 milljarða viðskiptum í kauphöllinni í dag, en einungis þrjú fyrirtæki hækkuðu í virði í viðskiptum dagsins. Fór vísitalan niður í 1.709,45 stig fyrir vikið. Aðalvísitala Skuldabréfa lækkaði um 0,08% í 4,7 milljarða viðskiptum dagsins og fór hún í 1.340,03 stig.

Af þeim þremur félögum sem hækkuðu í virði í dag hækkaði gengi bréfa VÍS mest, eða um 1,24% í 58 milljóna viðskiptum og stóð gengið í 11,45 krónum í lok dags. Næst mest hækkaði gengi bréfa Icelandair Group hf., eða um 0,32% í 441 milljón króna viðskiptum og náðu bréf félagsins upp í 15,85 krónur.

Reginn minnkaði mest

Mest lækkun var hins vegar á gengi bréfa Reginn, sem lækkaði um 2,37% í 94 milljón króna viðskiptum, svo gengi bréfa félagsins fór niður í 24,75 krónur.

Næst mest lækkun var svo á gengi bréfa Símans, sem lækkaði um 1,77% í 193 milljón króna viðskiptum, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í dag vann Vodafone mál gegn Símanum í dag fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Af þeim félögum sem lækkuðu voru mestu viðskiptin hins vegar með bréf Fjarskipta, eða fyrir 287 milljónir og lækkaði gengi bréfanna um 1,59% niður í 10,54 krónur.