Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 1,68% í kauphöllinni í dag, og voru nánast allar tölur dagsins rauðar þar sem öll fyrirtæki lækkuðu í verði utan Fjarskipta hf., móðurfélags Vodafone. Stóð úrvalsvísitalan í 1.621,55 stigum í lok dags, en heildarveltan nam 2,3 milljörðum á Aðalmarkaði hlutabréfa.

Aðalvísitala skuldabréfa lækkaði einnig, eða um 0,10% í rúmlega 2,8 milljarða viðskiptum og stóð hún í 1.322,19 stigum í lok viðskipta.

Eins og áður segir var móðurfélag Vodafone það eina sem hækkaði í virði í viðskiptum dagsins, sem námu tæpum 321 milljón króna með bréf félagsins. Hækkuðu þau um 0,68% og standa þau nú í 59,30 krónum hvert bréf.

Mest lækkun var hins vegar á bréfum Nýherja, sem lækkuðu um 3,41% í tæplega 42 milljón króna viðskiptum og fór gengi bréfanna niður í 26,90 krónur. Næst mest lækkaði gengi bréfa Símans, eða um 3,23% í tæpum 249 milljón króna viðskiptum og fæst hvert bréf félagsins nú á 3,60 krónur.

Langmestu viðskipti dagsins voru svo með bréf Marel hf., eða fyrir 610 milljónir króna, en í viðskiptunum lækkaði gengi bréfanna um 1,34% niður í 330,50 krónur.