Arius ehf., félag í eigu Ólafs Ólafssonar, og Hjörleifs Jakobssonar, flutti tæpa tvo milljarða króna inn til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands í desember 2012.

Fjárfestingarleiðin veitti félaginu rúman fimmtungsafslátt af krónunum sem keyptar voru, en undir lok árs gæti félagið innleyst um 809 milljóna gengishagnað miðað við núverandi gengi krónunnar að því er Fréttablaðið greinir frá.

Ólafur hefur gefið það upp að fjármunirnir hafi einkum verið nýttir til fjárfestinga í Samskipum, þar sem hann er aðaleigandi, og í fjárfestingarfélaginu Festingu. Arius er svo dótturfélag SMT Partners B.V. sem skráð er í Hollandi, en það er í eigu Hjörleifs að 20% og 80% í eigu Ólafs.