Dr. Dýri er nýtt snjallforrit fyrir gæludýraeigendur sem gengur út á það að geyma rafrænar heilsufarsbækur gæludýra. Snjallforritið var stofnað af þeim Evu Maríu Schiöth Jóhannsdóttur, Almari Gauta Ingvarssyni og Berglindi Ómarsdóttur og að sögn Evu er mikil þörf á forriti af þessu tagi.

„Það sem við erum að gera er að við erum að byggja fyrirtæki í kringum rafrænar heilsufarsbækur fyrir gæludýr. Okkar markmið er að gera líf gæludýra betra og gera eigendum þeirra kleift að hafa betri yfirsýn yfir heilsu dýranna sinna,“ segir Eva og bætir við að inni í forritinu sé innbyggt áminningarkerfi, fróðleiksefni og neyðarhnappur.

Með Evu í vöruþróunarteyminu eru þau Almar Gauti Ingvarsson viðskiptafræðingur og Berglind Ómarsdóttir tölvunarfræðingur. „Ég vildi byggja teymið mitt upp þannig að hæfileikar hvers og eins fái að njóta sín. Almar Gauti til dæmis er rosalega góður í að hafa samskipti við fólk svo það var afar þægilegt að fá hann í teymið til þess að sjá um sölumennskuna og kynninguna. Svo er hún Berglind forritari sem hefur mikla ástríðu fyrir dýrum. Við vinnum mjög vel saman og hún sér um hönnunina á forritinu meðan við öll þróum það saman.“

Dýralæknar vinni saman en ekki í samkeppni

Spurð hvernig hugmyndin hafi kviknað segir Eva að henni hafi dottið þetta í hug eftir að hafa starfað á dýralæknastofu í átta ár. „Ég er framkvæmdastjóri og meðeigandi á Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti og í starfi mínu þar tók ég eftir því að það er ekki til neinn sameiginlegur gagnagrunnur fyrir dýralækna. Ef mig til að mynda vantar sjúkrasögu fyrir einhvern ákveðinn hund þá þá get ég ekki flett upp í kerfinu mínu heldur þarf ég að hringja á milli dýraspítala til að fá söguna og finna hvar hann var,“ segir Eva og bætir við að hún vilji að dýralæknar vinni saman en ekki í samkeppni.

„Það er okkar stefna að hafa hag dýrsins ávallt í huga sem og að einfalda gæludýraeigendum lífið.“ Hún bætir við að þegar hún tók áfangann Nýsköpun og viðskiptaþróun í meistaranámi sínu við Háskóla Íslands hafi hún tekið þá ákvörðun að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. „Í kjölfar þess að ég fékk þessa hugmynd þá fékk ég nokkra nemendur í HÍ til að gera markaðskönnun fyrir mig um eftirspurn á Íslandi fyrir þessa tegund af snjallforriti. Þá fundum við að bæði hundaog kattasamfélagið tóku afar vel í þessa hugmynd.“ Eva segir jafnframt að fyrirtækið stefni á að snjallforritið fari í loftið í haust. „Við erum með beta prófanir í gangi núna til náins hóps en stefnan er að gefa snjallforritið út í Google Play til að byrja með þann 1. september næstkomandi. En þeir sem eru forvitnir geta nálgast allar upplýsingar um okkur á heimasíðunni okkar drdyri.is.“

Hún bætir við að þau hafi sett alls kyns upplýsingar um fyrirtækið á ýmsar síður þar sem gæludýraeigendur eru og fengið góðar viðtökur. „Við höfum fengið frábærar viðtökur. Við erum komin í samstarf við Royal Canin, Hill´s á Íslandi og fleiri. Við erum einnig búin að ræða hugmyndir okkar við Dýraspítalann í Garðabæ og Dýralæknamiðstöðina í Grafarholti. Síðan erum við líka bara að dreifa upplýsingum um fyrirtækið okkar á eins marga staði og við getum og við höfum bara fengið jákvæð viðbrögð alls staðar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .