Markaðsaðilar á skuldabréfamarkaði gera ráð fyrir um 1,8-2% verðbólgu á þessu ári en að hún muni aukast á næsta ári og verði 2,1-2,5% að meðaltali á hverjum ársfjórðungi. Þetta kemur fram í könnun Seðlabanka Íslands meðal markaðsaðila á skuldabréfamarkaði sem framkvæmd var dagana 9. til 11. ágúst.

Markaðsaðilar vænta þess að verðbólga verði 2,5% eftir tvö ár og 2,5-2,65 að meðaltali næstu fimm og tíu ár. Könnunin gefur einnig til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi evru gagnvart krónu verði 125 krónur eftir eitt ár, 127 krónur eftir tvö ár. Eru því væntingar um gengi að krónunnar verði u.þ.b. jafn hátt á næstu misserum og það var við framkvæmd könnunarinnar. Er það ólíkt því sem verið hefur í síðustu könnunum þegar markaðsaðilar gerðu yfirleitt ráð fyrir gengishækkun.

Í könnuninni kemur einnig fram að markaðsaðilar búist við því að Seðlabankinn muni lækka stýrivexti um 0,25 prósentustig til viðbótar til viðbótar á yfirstandandi ársfjórðungi.

Í könnuninni var leitað var til 30 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 18 aðilum og var svarhlutfallið því 60%.