Eftir nokkurra ára þróunarvinnu er íslenska lyfjafyrirtækið Florealis er nú komið með vörur á markað. Fyrirtækið sérhæfir sig í lækningavörum og jurtalyfjum, sem framleidd eru úr virkum náttúruefnum.

Almennt má segja að vörur sem unnar eru úr jurtum sæti eftirliti Matvælastofnunar en lyfin sem Florealis er að markaðssetja gera það ekki heldur eru þau  skráð hjá Lyfjastofnun. Þar með falla þau undir hið stranga regluverk sem gildir um lyfjamarkaðinn en ekkert annað íslenskt fyrirtæki hefur fengið slíka skráningu jurtalyfja og því hefur Florealis mikla sérstöðu.

Vörur í flest apótek

Kolbrún Hrafnkelsdóttir lyfjafræðingur, sem vann hjá Actavis um árabil, fékk hugmyndina að Florealis árið 2012 og byrjaði þá strax að vinna í þessu verkefni. Fyrirtækið var formlega stofnað ári seinna þegar það tók þátt í Startup Reykjavík. Frá þeim tíma hefur farið fram þrotlaus þróunarvinna, sem nú er að bera ávöxt.

„Jurtalyf eru alveg nýr lyfjaflokkur á Íslandi," segir Kolbrún, sem er stærsti hluthafinn í Florealis og forstjóri fyrirtækisins. „Við byggjum þessar vörur á virkjum efnum úr náttúrunni, jurtum — það er okkar sérstaða. Það má segja að við höfum verið í þróunarvinnu þar til fyrir einum og hálfum mánuði síðan þegar við settum fyrstu vörurnar á markað hér á Íslandi. Vörurnar eru komnar í flest apótek.

Við erum með vörulínu fyrir konur en þær vörur sem ætlaðar eru til meðferðar á óþægindum og sýkingum á kynfærasvæðinu og í leggöngum. Einnig erum við með tvær húðvörur. Annars vegar er það krem sem ætlað er til meðferðar á bólum og óhreinindum í húð og hins vegar frunsukrem."

Fyrstu lyfin koma í lok ársins

Kolbrún segir að í lok ársins komi fyrstu jurtalyfin á markað. „Þetta eru lyf við vægum sjúkdómum. Í fyrsta lagi lyf við þvagfarasýkingum, í öðru lagi svefn- og róandi lyf og í þriðja lagi lyf við liðverkjum."

Kolbrún segir að nú, þegar fyrirtækið sé komið með vörur í lyfjaverslanir, hefjist annar fasi í uppbyggingu fyrirtækisins.

„Nú er mikil áhersla á markaðsmál og samninga við dreifiaðila. Fyrir um ári síðan hófum við samningaviðræður við Apoteket í Svíþjóð og þeim viðræðum lauk nýverið. Í byrjun þessa mánaðar undirrituðum við samning og vörur Florealis koma á markað í Svíþjóð í febrúar. Þetta er ein stærsta keðjan á Norðurlöndunum og því mjög mikils virði fyrir okkur að komast þar inn með okkar vörur."

Apoteket rekur 370 lyfjaverslanir

Apoteket er gamla ríkisapótekið í Svíþjóð en árið 2009 var rekstur lyfjaverslana þar í landi gefinn frjáls. Apoteket rekur 370 apótek víðsvegar um Svíþjóð og að sögn Kolbrúnar hefur fyrirtækið verið leiðandi á sænska markaðnum.

Kolbrún segir að forsenda fyrir rekstri Florealis sé að að fyrirtækið nái að hasla sér völl á alþjóðlegum markaði.

„Íslenski markaðurinn stendur ekki undir kostnaði við þróun og skráningu því við förum í gegnum fullar lyfjaskráningar með okkar lyf. Við erum með skráningu á öllum Norðurlöndunum. Ísland var fyrsta stopp, svo kemur Svíþóð og eftir það aðrir markaðir á hinum Norðurlöndunum. Við stefnum að því koma vörum okkar í lyfjaverslanir í Danmörku, Noregi og Finnlandi í lok næsta árs og næstu árum þar á eftir. Þegar við verðum að búinn að byggja okkur upp sem öflugt vörumerki á Norðurlöndunum getum við farið að skoða aðra markaði."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .