Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að breytingu á byggingarreglugerð, en breytingin kveður á um að í nýbyggingum og við endurbyggingu skuli gera ráð fyrir tengibúnaði vegna hleðslu rafbíla að því er kemur fram í tilkynningu á vef ráðuneytisins .

Þar segir að talsverð aukning hafi orðið á framboði og sölu rafbíla að undanförnu, en að ónógir innviðir geti haft neikvæð áhrif á þá þróun. „Því er mikilvægt að í byggingarreglugerð séu skilgreind markmið og grunnkröfur vegna hleðslu rafbíla,“ segir í tilkynningunni.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðasta mánuði sagði Björt Ólafsdóttir, ráðherra umhverfismála í samtali við Ríkisútvarpið, að til þess að auka innviði þurfi ekki bara vegi. „Við þurfum að geta hlaðið þessa bíla, þessa rafmagnsbíla og við verðum að gera ráð fyrir þeim innviðum í byggingarreglugerðum að nýbyggingar hafi þetta innbyrðis.“

Þá kemur einnig fram að fjölbýlishús þarf að hanna með væntanlega aflþörf í huga og að við eldri fjölbýlishús þarf í mörgum tilvikum að gæta að endurbótum til að gera hleðslu rafbíla mögulega. Að lokum kemur að fram að með breytingunni verður einfaldara fyrir almenning að setja upp slíkan búnað þar sem búið er að gera ráð fyrir honum við hönnun bygginganna.