Fólki þykir kvenkyns snjallmenni (e. bots) gædd jákvæðari mannlegum eiginleikum - á borð við hlýju, reynslu og tilfinningu - samanborið við karlkyns snjallmenni. Þessi upplifun gerir það að verkum að neytendur kunna betur að meta kvenkyns snjallmenni en karlkyns, að því er niðurstöður nýlegrar rannsóknar sýna. Academic Times fjallar um málið.

Notendur upplifa kvenkyns snjallmenni ekki aðeins sem mannlegri, heldur einnig traustverðari og líklegri til að mæta þörfum notenda, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar sem birt var í síðasta mánuði í fræðiritinu Psychology & Marketing. Hin yfirgripsmikla rannsókn er sú fyrsta sinnar tegundar sem snýr að birtingu kynjanna í gervigreind og veitir mikilvæga innsýn í hvernig nútíma tækni hugsanlega hlutgeri konur.

Vinsældir kvenlægrar gervigreindar er þegar sýnileg í tæknigeiranum, allt frá stafrænum aðstoðarmennum á borð við Siri og Alexu yfir í vélmenni á borð við Sophiu.

Siðferðisleg álitamál tengd hlutgervingu kvenna

Vélar þykja skorta hlýju og vingjarnleika en með því að glæða tæknina mannlegum eiginleikum eykur má auka traust notenda til snjallmenna, sér í lagi ef þau eru kvenkyns. Kvenvæðing gervigreindar getur þó skapað siðferðisleg álitamál, að mati höfunda.

Það að setja einkum konur í hlutverk snjallmenna, geti þannig hæglega ýtt undir hlutgervingu kvenna. Einn höfunda segir meðal annars að með því að nota kvenkyns persónuleika til að manngera tæknina sé stuðlað að „hugmyndum um að konur séu einföld verkfæri, hönnuð til að uppfylla þarfir eiganda síns."

Þá er bent á að flest snjallmenni notist aðeins við persónuleika kvenna, en ekki líkama þeirra. Það breyti því þó ekki að kvenkyns snjallmenni eru engu að síður hlutgerð út frá persónueinkennum sínum, með viðlíka hætti og konur eru hlutgerðar út frá útliti í auglýsingum.