HB Grandi tilkynnti á mánudaginn að fyrirtækið hygðist hætta botnfiskvinnslu á Akranesi og flytja hana til Reykjavíkur. Af 270 starfsmönnum fyrirtækisins á Akranesi starfa 93 við botnfiskvinnslu.

Forsvarsmenn fyrirtækisins gáfu tvær skýringar á þessari ákvörðun. Annars vegar að rekstrarhorfur fyrir botnfiskvinnslu hefðu ekki verið lakari í áratug og því væri útlit fyrir tap á landvinnslu botnfisks. Hins vegar að á Akranesi væri hvorki hafnaraðstaða né aðstaða til vinnslu alls botnfiskafla ísfisktogara HB Granda á Akranesi.

Bæjarstjórn Akraness brást skjótt við og á fundi á þriðjudaginn samþykkti hún einróma viljayfirlýsingu þess efnis að ganga frá samkomulagi við HB Granda og Faxaflóahafnir um gerð landfyllingar og endurbóta á hafnaraðstöðunni.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, segir að fundað hafði verið með trúnaðarmönnum stéttarfélaganna í gær. Þá hafi verið ákveðið að ræða við bæjaryfirvöld á Akranesi um að það hvort þeirra væntingar um uppbyggingu væru raunhæfar.

„Við munum reyna að ljúka þeim viðræðum sem fyrst en fáist ekki jákvæð niðurstaða þá verður allri botnfiskvinnslu HB Granda á Akranesi hætt 1. september næstkomandi," segir Vilhjálmur. Spurður hvort hann sé bjartsýnn á lausn finnist á þessum málum svarar hann: „Ég get ekki sagt að ég sé bjartsýnn því ég vil ekki vekja upp of miklar vonir en við ætlum vissulega að gefa þessu tækifæri."

Ekki er búið að ákveða hvort þeim 93 starfsmönnum sem nú starfa við vinnsluna á Akranesi verði sagt upp ef vinnslan flytur til Reykjavíkur.

„Það á alveg eftir að fara yfir þau mál en við reiknum með því að þeim verði sagt upp en það á samt eftir að vinna úr því."

Ekki bakkað með arðgreiðslur

Tillaga um að greiða 1,8 milljarða króna arð vegna afkomu síðasta árs verður lögð fyrir aðalfund HB Granda 5. maí. Vilhjálmur segir að ekki verði bakkað með þá ákvörðun.

„Arðgreiðslan jafngildir því að hluthafarnir séu að fá  um 3,8% ávöxtun af sínu hlutafé miðað við verðmæti hlutabréfanna um áramótin."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .