Þrettán lykilstarfsmenn, aðrir en Birgir Jónsson, forstjóri félagsins, Play geta hagnast um yfir 330 milljónir króna á kaupréttum sem fyrst er hægt að nýta í þessum mánuði og í síðasta lagi eftir ár, samkvæmt því sem fram kom í skráningarlýsingu Play í fyrra . Kaupréttirnir voru gefnir út í apríl ári eftir að Play hafði lokið sex milljarða hlutafjárútboði í aðdraganda skráningar félagsins á markað. Þar bauðst starfsmönnunum að gera kaupréttarsamning að tuttugu milljónum hluta á genginu 8 krónur á hlut sem var helmingur af útboðsgengi Play í apríl.

Gengi bréfa Play stendur nú í 24,6 krónum á hlut og geta kaupréttirnir skilað þeim þrefaldri ávöxtun. Birgir Jónsson segist ekki vera hluti af umræddum hópi. Um er að ræða að miklu leyti þá sem komu að því að ýta félaginu úr vör frá árinu 2019. Tvö ár liðu frá því að undirbúningur hófst þar til fjármögnun félagsins var tryggð og hefur starfsfólk unnið á skertum launum eða launalaust stóran hluta þess tímabils.

„Við hefðum ekki getað farið í loftið svona hratt án þeirrar vinnu sem þau lögðu á sig. Allt sem búið var að leggja drög að hefur gengið upp. Fólk var að vinna fyrir brot af laununum sínum og það þurfti að bjóða fólki eitthvað,“ segir Birgir.

Play undirbýr nú sitt fyrsta heila ferðasumar en fyrsta Ameríkuflug félagsins fer í loftið á miðvikudaginn.

Birgir gerði samhliða ráðningu sinni fyrir ári annars konar kaupréttarsamning við Play. Kaupréttur Birgis er nýtanlegur eftir tvö til fjögur ár í þremur pörtum og nemur samtals 13,6 milljónum hluta á genginu 16 krónur á hlut. Þá bendir Birgir á að hann hafi sjálfur fjárfest í Play fyrir ári en fjárfesting hans nemur um 50 milljónum króna. Birgir segir að kaupréttarsamningar sínir séu gerðir með það að leiðarljósi að Play gangi vel til lengri tíma.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .