Viðskiptavinir rafbílaframleiðandans Tesla geta nú greitt fyrir varning með rafmyntinni Dogecoin, en umrædd rafmynt var hugsuð sem grín er hún var fyrst gefin út. Elon Musk, forstjóri Tesla, staðfesti þetta í færslu á samfélagsmiðlinum Twitter. BBC greinir frá.

Musk sagði frá því í síðasta mánuði að það stæði til að gera neytendum kleift að greiða fyrir Tesla-varning með Dogecoin og hefur hann nú staðið við stóru orðin.

Í kjölfar Twitter færslu Musk þar sem hann staðfesti ofangreint, fór gengi Dogecoin á flug og á ákveðnum tímapunkti hafði gengið hækkað um 14%. Skömmu síðar byrjaði gengið þó að leita niður á við.

Er þetta langt frá því að vera fyrsta skiptið sem færslur Musk á Twitter valda sveiflum í gengi rafmynta. Til að mynda hafa hinar ýmsu færslur hans á samfélagsmiðlinum orðið þess valdandi að gengi rafmyntarinnar hefur farið á flug, meðan aðrar hafa valdið skarpri dýfu á gengi rafmyntarinnar.