Ferðaskrifstofan Super Break hóf nýlega flug milli Bretlands og Akureyrar í svokallaðar Norðurljósaferðir að því er kemur fram á Túrista.is . Tvær af fyrstu fjórum ferðum ferðaskrifstofunnar hafa hins vegar endað í Keflavík vegna skorts á búnaði á Akureyrarflugvelli. Flugmenn vélanna hafa ekki treyst sér til að lenda án búnaðarins við slæm veðurskilyrði.

Sala á ferðum Super Break gekk afar vel og mikil spenna hefur ríkt fyrir norðan en þetta er í fyrsta skipti sem flogið er beint til Akureyrar frá Bretlandi. Meðal annars klippti ferðamálaráðherra á borða við komu fyrstu vélarinnar til Akureyrar.

Forsvarsmenn Markaðsstofu Norðurlands, sem unnið hafa að því að kynna Norðurland fyrir flugfélögum og ferðaskrifstofum skora nú á stjórnvöld að kaupa og setja upp búnað fyrir aðflug úr norðri á Akureyarflugvelli. Í svari við fyrirspurn Túrista segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofunnar, að í mörg ár hefði verið bent á að koma þyrfti búnaðinum fyrir og verkið myndi klárast í ár. Þegar á hólminn var komið reyndist fjármagnið þó ekki vera til staðar og telur hún að skortur á búnaðinum geti haft neikvæð áhrif á viðræður við erlendar ferðaskrifstofur og flugfélög um áframhaldandi uppbyggingu á beinu flugi til Akureyrar.

Hins vegar ber að geta þess að forsvarsmenn Super Break voru meðvitaðir um takmarkanirnar á Akureyrarflugvelli áður en norðurljósaferðirnar voru kynntar. Ferðaskrifstofan sendi frá sér tilkynningu í gær en þar kom fram að flugáætlunin verði með óbreyttu sniði og að Super Break muni halda sínu striki og fjölga ferðum norður í ár og næsta vetur eins og áður hafði verið kynnt.