Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Ghostlamp hefur tekið að sér að selja kaffi í Brasilíu. Fyrirtækið er markaðstorg á vefnum sem auðveldar fyrirtækjum og auglýsingastofum aðgengi að áhrifavöldum á samfélagsmiðlum um allan heim. Ghostlamp opnaði nýlega skrifstofu í borginni Natal í Brasilíu og hefur nú gert samning við fyrirtækið Eugenio Café um að selja kaffi í Brasilíu.

,,Þetta er mjög spennandi verkefni. Eugenio Café er í eigu Eugenio Ribeiro Neto sem eyddi nokkrum árum í rannsóknir á kaffibaunum m.a. hvað varðar loftslag, lofthæð og jarðveg til að fá sem best kaffi. Það er nefnilega svo skrítið að Brasilía er frábært hráefnisland í kaffi en svo endar það í flestum tilfellum þar. Baunirnar eru fluttar óristaðar frá landinu og varan framleidd annars staðar. Eugenio fór þess vegna í þessar rannsóknir og vildi gera besta kaffi í heimi, bæði í hylkjum fyrir Nespresso vélar og sem ristaðar baunir," segir Valgeir Magnússon, stjórnarformaður Ghostlamp um samstarfið.

,,Kaffið fer nú eins og eldur um sinu í Brasilíu og er væntanlegt á Evrópumarkað á næstu mánuðum og stefnt á Bandaríkin á næasta ári. Ghostlamp byrjar á að vinna með þeim Brasilíumarkað og svo færumst við vonandi með þeim um heiminn," segir Valgeir ennfremur.