Tæplega 2,8 milljarða viðskipti fóru fram í morgun með 10% hlut í Skeljungi. Gildi lífeyrissjóður seldi 8% hlut í félaginu, samkvæmt flöggunartilkynningu , fyrir 2,26 milljarða en fleiri en einn aðili var á söluhliðinni. Gildi, sem var fyrir viðskiptin næst stærsti hluthafi Skeljungs með 10,7% hlut, fer núna með 2,7% hlut. Þá seldi Birta lífeyirssjóður, fimmti stærsti hluthafinn, 1,75% hlut fyrir rétt undir hálfan milljarð og fer sjóðurinn nú með 4,6%. Alls var skipt á 193,7 milljónum hlutum í Skeljungi fyrir 14,6 krónur á hlut.

Meðal kaupenda er bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital en hann keypti 5% hlut í Skeljungi, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar. Taconic var stærsti hluthafi Arion banka um tíma en seldi sig út úr bankanum á fyrri hluta síðasta árs .

Taconic Capital kom að fjármögnun á skuldsettri yfirtöku fjárfestingafélagsins Strengs, sem Jón Ásgeir Jóhannesson fer fyrir. Í byrjun janúar 2021 eignaðist Strengur ráðandi hlut í Skeljungi eða nánar tiltekið 50,06% hlut.

Síðan þá hefur hlutur lífeyrissjóða í Skeljungi lækkað nokkuð. Festa lífeyrissjóður seldi 4,99% eignarhlut í Skeljungi í byrjun ágúst fyrir 1,1 milljarð. Frá janúar til desember á síðasta ári lækkaði hlutur þeirra úr tæplega 40,6% í 31,7%.

Stirt samband á milli Gildis og Strengs

Í nóvember 2020 lagði Strengur, sem átti þá um 36% hlut, fram yfirtökutilboð í alla hluti Skeljungs á 8,315 krónur á hlut en einungis eigendur 2,56% hlutafjár tóku tilboðinu. Þegar niðurstaða yfirtökutilboðsins var kynnt var haft eftir Jóni Ásgeiri, sem er stjórnarformaður Skeljungs, að með því að hafna tilboðinu mætti líta svo á að aðrir hluthafar væru að sýna traust og trú á þeirri vegferð sem Strengur hefði kynnt varðandi Skeljung. Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, hafnaði þessari skýringu og sagði yfirtökutilboðið einfaldlega hafa verið of lágt.

Sjá einnig: Kannast ekki við stuðningsyfirýsingu

Þá lagðist Gildi gegn ákveðnum tillögum á hluthafafundi Skeljungs í október. Lífeyrissjóðurinn gerði athugasemd við tillögu um að fella burt ákvæði um að samþykki allra hluthafa þurfi til að gera verulegar breytingar á tilgangi félagsins. Einnig lagðist sjóðurinn gegn breytingu á ákvæði um að breyta samþykktum Skeljungs svo að auknar áherslur verði lagðar á fjárfestingastarfsemi.

12 milljarða hagnaður af eignasölu

Í tengslum við yfirtökutilboðið boðaði Strengs-hópurinn ýmsar breytingar á rekstri Skeljungs, m.a. í ljósi yfirvofandi orkuskipta í samgöngum. Þá var stefnt að selja eignir og greiða út hluthöfum, m.a. til að greiða lán sem tekin voru fyrir kaupum Strengs á Skeljungi til baka.

Margrar af þeim breytingum hafa komist til framkvæmda síðan. Undir lok desember tilkynnti Skeljungur að félagið myndi hagnast um 12 milljarða króna á sölu fasteigna , sem leigðar verða aftur, og meirihluta í færeyska olíufélaginu P/F Magn. Skeljungur seldi P/F Magn til Sp/f Orkufélagsins fyrir 12,3 milljarða. Skeljungur mun endurfjárfesta um 23% af heildarsöluverði eða 2,8 milljörðum í Sp/f Orkufélaginu og fá fyrir 48,3% eignarhlut. Þá skrifaði Skeljungur undir viljayfirlýsingu á sölu fasteigna fyrir 8,8 milljarða til fasteignafélagsins Kaldalóns og fleiri aðila, en Strengur er jafnframt stærsti hluthafi Kaldalóns. Einnig má minnast á að rekstri Skeljungs var nýlega stokkað upp í ný dótturfélög sem hafa tekið til starfa .

Uppfært 15:40: Fréttin var uppfærð eftir að Birta lífeyrissjóður birti flöggunartilkynningu.