Langflestir, eða 70% erlendra bílaleigutaka sögðust hafa ekið yfir eitt þúsund kílómetra og um 80% þeirra sögðust hafa ekið um Suðurland að því er fram kemur í könnun bílaleigunnar Geysis meðal viðskiptavina sinna.

Hins vegar fóru fæstir þeirra til Austfjarða, eða 58% að því er Morgunblaðið segir frá upp úr greinargerð Vegagerðarinnar á könnuninni sem gerð var í júní fram til loka ágústmánaðar. Tæplega fimmtungur, eða 19% leigutaka gistu ekkert í höfuðborginni, en meðalfjöldi gistinátta þeirra var um tveir dagar í borginni.

Tæplega helmingur leigutaka dvöldu einungis eina til tvær nætur í borginni, meðan meðalleigan nam hins vegar 9 nóttum, svo flestir virðast eyða um 7 nóttum utan hennar. Um fjórðungur leigjenda gistu hins vegar þrjár til fimm nætur í borginni.

Flestir leigutakarnir komu frá ríkjum Evrópu, eða 60%, en næst stærsti hópurinn, eða 19% koma frá Bandaríkjunum og Kanada. Höfðu rúmlega 40% leigt minnstu gerð fólksbíla, en um 29% leigðu jepplinga og 11% jeppa, en aðeins 1% leigðu stærri gerðir bíla.