Gistinætur á hótelum í apríl voru um 290 þúsund talsins, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Til samanburðar voru gistinætur á hótelum hér á landi 272,6 þúsund í apríl 2019. Rúmanýting var einnig betri en í apríl 2019.

Breytist niðurstöður Hagstofunnar ekki verulega við endurskoðun er um að ræða fyrsta sinn frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst sem gistinætur voru fleiri en í sama mánuði árið 2019.

Samkvæmt bráðabirgðatölum, sem byggja á fyrstu skilum, voru gistinætur Íslendinga um 99 þúsund í síðasta mánuði samanborið við 37 þúsund í apríl 2019. Gistinætur erlendra ferðamanna voru um fimmtungi færri en árið 2019 eða um 191 þúsund í síðasta mánuði samanborið við 235,5 þúsund í apríl 2019.