Gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru 543 þúsund í janúar síðastliðnum, sem er 4,1% fækkun frá 566 þúsund gistinóttum í janúar fyrir ári síðan að því er Hagstofan greinir frá. Mest var fækkunin í gistingu í gegnum Airbnb og svipaðar síður, eða 6%, niður í 104 þúsund, en fækkunin á hótelum og gistiheimilum, nam 4,5%, niður í 323 þúsund.

Mun minni fækkun var hins vegar á öðrum tegundum gististaða, eða 0,9%, en um 116 þúsund gistinætur voru í íbúðagistingu sem fellur undir þann lið, auk farfuglaheimila og tjaldsvæða að því er Hagstofa Íslands greinir frá. Loks voru um 16 þúsund gistinæturu hjá vinum og ættingjum og 6 þúsund í bílum utan tjaldsvæða.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um fækkaði íbúðum í boði í gegnum Airbnb og aðrar slíkar síður í lok síðasta árs, en síðan átaksverkefni um eftirlit með slíkum útleigum hófst í sumar hafa sektir fyrir 71 milljón krónur verið lagðar á aðila sem leigt hafa þær út.

Um 70% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu, eða rúmlega 187 þúsund, en samdráttur var í fjölda gistinátta á svæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi, en fjölgun í öðrum landshlutum. Á hótelum í janúar voru 266,4 þúsund gistinætur, sem er fækkun um 8%.

Herbergjanýtingin var 49,9% í janúar, sem er lækkun um 6 prósentustig frá janúar 2018, en framboð hefur aukist á sama tíma um 2,1%. Um 91% gistinátta á hótelum var skráð á erlenda ferðamenn, eða 242.800 sem er 8% færra en í janúar 2018. Bretar voru með flestar gistinætur, eða 81.300, síðan Bandaríkjamenn með 57.200 og Kínverjar með 20.200 en gistinætur Íslendinga voru 23.500.