Heildarfjöldi greiddra gistinátta í júlí dróst saman um 1% milli áranna 2018 og 2019. Á hótelum og gistiheimilum varð aukning um 1,7%, á stöðum sem miðla gistingu gegnum Airbnb og svipaðar síður varð fækkun um 5,1%, og gistinóttum á öðrum tegundum gististaða fækkaði um 3,0%. Greint er frá þessu á vef Hagstofu Íslands .

„Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 1.558.000 í júlí síðastliðnum, en þær voru um 1.576.000 í sama mánuði í fyrra. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru 716.800, þar af 492.400 á hótelum og 224.400 á gistiheimilum. Gistinætur í íbúðagistingu, farfuglaheimilum, tjaldsvæðum o.þ.h. voru um 599.000 og um 242.000 í gegnum vefsíður á borð við Airbnb,“ segir í frétt Hagstofunnar.

Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 1%

Þá segir jafnframt að gistinóttum á hótelum í júlí síðastliðnum hafi verið 492.400, sem sé 1% fjölgun frá sama mánuði árið áður. Gistinætur á hótelum á höfuðborgarsvæðinu hafi verið 5% færri en í júlí í fyrra, en þeim hafi ýmist fjölgað eða þær staðið í stað í öðrum landshlutum. Um 47% allra hótelgistinátta hafi verið á höfuðborgarsvæðinu, eða 232.500, en hafi verið 243.500 í fyrra.

Á tólf mánaða tímabili, frá ágúst 2018 til júlí 2019, hafi heildarfjöldi gistinátta á hótelum verið um 4.400.000, sem sé 1% aukning miðað við sama tímabil árið áður.

„Frá júlí 2014 hefur framboð hótelherbergja á landinu farið úr 6.200 herbergjum upp í 10.800, sem er aukning um 74%. Í júlí 2009 voru herbergin 4.600 og hafa því aukist um 133% síðan þá.

Herbergjanýting í júlí 2019 var 80,8% sem er lækkun um 1,9 prósentustig frá júlí 2018 þegar hún var um 82,7%. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 3,4% mælt í fjölda herbergja. Nýtingin í júlí var best á Suðurnesjum, eða 88,0%.

Um 92% gistinátta á hótelum voru skráðar á erlenda ferðamenn, eða 455.000 sem er 3% aukning frá júlí 2018. Bandaríkjamenn voru með flestar gistinætur (148.700), þar á eftir koma Þjóðverjar (52.600) og Kína (31.400) en gistinætur Íslendinga voru 37.400,“ segir í frétt Hagstofunnar.