Gjaldtaka er hafin við Seljalandsfoss, einn þekktasta foss landsins. Rukkað er á bílastæðinu við fossinn. Bílastæðagjaldið er 700 krónur á hvern bíl á sólarhring en 3 þúsund krónur fyrir rútur. Mbl.is greindi frá þessu í gær.

Sveitarstjórn Rangárþings eystra og Landeigendafélag Seljalandsfoss standa sameiginlega að gjaldtökunni. Rangárþing eystra hefur lagt um 30 milljónir króna í starfsemina við Seljalandsfoss undanfarin 15 ár án þess að fá tekjur á móti af starfseminni. Tekjum af bílastæðagjaldinu er ætlað að standa straum af kostnaði við uppbyggingu innviða við fossinn, svo sem gönguleiða, bílastæða, salernisaðstöðu og jafnvel þjónustumiðstöðvar.

Mikill fjöldi ferðamanna heimsækir Seljalandsfoss á hverju ári. Talið er að þeir hafi verið um 500 þúsund í fyrra.