Gjaldþrot í bandaríska fyrirtækinu Sears Holding Corp er nú yfirvofandi. Verð á hlutabréfum í fyrirtækinu lækkaði um 30% í fyrstu viðskiptum dagsins eftir að skýrsla sýndi fram á að fyrirtækið væri að búa sig undir gjaldþrotaskipti. Þetta kemur fram á vef Reuters . Fyrirtækið hefur nú þegar ráðið til sín ráðgjafa til að aðstoða fyrirtækið við gjaldþrotaskiptin.

Sears var stærsta smásöluverslun Bandaríkjanna árið 1960 en hefur undanfarin misseri barist í bökkum sökum samkeppni við netverslanir á borð við Amazon.com.

Sears hefur skilað tapi undanfarin sjö ár og hafa rekstrartekjur félagsins ekkert aukist á undanförnum 10 árum síðan fjármálakreppan reið yfir.