Nýsköpunarfyrirtækið Alor vinnur að því að setja á markað sjálfbærar og vistvænar álrafhlöður og orkugeymslur en tæknin hefur verið rannsökuð og þróuð í tæplega áratug af spænska samstarfsfyrirtækinu Albufera Energy Storage. Að sögn Lindu Fanneyjar Valgeirsdóttur, framkvæmdastýru Alor, verða álrafhlöðurnar leikbreytir í geymslu og nýtingu endurnýjanlegrar orku. Lausnir Alor breyta leiknum með því að vinna bug á áskorunum í þekktri rafhlöðutækni á borð við eitruð og sjaldgæf hráefni, stórt umhverfisspor, takmarkanir við endurvinnslu, eld- og sprengihættu, stuttan endingartíma og háan kostnað.

„Rannsóknir og prófanir gefa til kynna að álrafhlöðurnar muni móta þáttaskil við geymslu á rafmagni. Álrafhlöður eru tiltölulega ódýr lausn í innkaupum og rekstri, þær eru auðveldlega endurvinnanlegar og ganga ekki á afar takmarkaðar auðlindir jarðar. Þá eru þær öruggar, þ.e. af þeim stafar hvorki eld- né sprengihætta auk þess sem þær munu hafa a.m.k. tvöfaldan endingartíma rafhlaðna sem almennt eru notaðar í dag," segir Linda og bætir við að fyrstu frumgerðir álrafhlaðna Alor muni líta dagsins ljós í sumar. „Ég tel óhætt að segja að Ísland sé hér með einstakt tækifæri í höndunum til þess að koma lausnum á markað sem allur heimurinn bíður eftir."

Linda bendir á að hér á landi hafi átt sér stað töluverð umræða um yfirvofandi orkuskort og borist fréttir af því að sumir stórnotendur raforku hafi neyðst til að ræsa dísilknúnar varaaflsvélar með tilheyrandi „kolefnislangstökki".

„Á ákveðnum tímum er til staðar umframorka í raforkukerfinu, þ.e. eftirspurn fellur tímabundið niður en framleiðslugetan helst óbreytt. Með raforkugeymslum er unnt að bæta nýtingu rafmagnskerfisins með því að geyma umframorkuna í raforkukerfinu og veita þegar eftirspurnin eykst. Þannig má hækka grunnálagið sem kerfið ræður við. Auk þess má stilla upp raforkugeymslum á vel völdum stöðum til að jafna álag á raforkukerfið og til þess að taka á orkutoppum, í stað þess að leggja stærri raforkustrengi.  Raforkugeymslur geta því nýst þar sem setja á upp hleðslustöðvar fyrir bíla og einnig til að tengja skip við hafnir og þar með draga úr notkun á dísilknúnum ljósavélum."

Leysir eitraðra rafgeyma af hólmi

Hún segir það mat sérfræðinga að rafhlöður og stórar raforkugeymslur muni gjörbylta raforkumarkaði enda geri spár ráð fyrir að heimsmarkaður þeirra muni fjórtánfaldast á næstu átta árum. „Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur bent á að geymsla rafmagns muni gegna lykilhlutverki í orkuskiptunum og að fyrir liggi það mikilvæga verkefni að koma á markað sjálfbærum og samkeppnishæfum raforkugeymslum sem standist kröfur. Rafhlöður og stórar raforkugeymslur eru sérstaklega mikilvægar einingar í raforkukerfi. Þær er hægt að nýta til að geyma umfram raforku frá sveiflukenndum orkugjöfum eins og vindi og sól og veita raforku þegar lygnir og/eða sólin er sest."

Raforkugeymslur séu því millistykkið - púslið sem tengi saman endurnýjanlega orkugjafa og séu til þess fallnar að renna stoðum undir bætt orkuöryggi og tryggja orkusjálfstæði. Jafnframt geti rafhlöður og orkugeymslur bætt raforkugæði með því að lágmarka sveiflur í kerfinu og hreinsa rafmagnið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .