Glæpasamtök og eiturlyfjahringir sem löngum hafa verið áhrifamikil í svokölluðum favelum, eða fátæktarhverfum Rio de Janeiro borgar í Brasilíu, hafa gripið til sinna ráða vegna veirufaraldursins sem náð hefur til borgarinnar.

Fengu íbúar fátæktarhverfanna Muzema, Rio das Pedras og Tijuquinha, sem eru öll í vesturhluta borgarinnar, fjöldaskilaboð í gegnum samfélagsmiðla sem fyrirskipuðu þeim að halda sig inni við eftir átta á kvöldin.

„Athugið íbúar Rio das Pedras, Muzema og Tijuquinha! Útgöngubann frá 8 eftir hádegi í dag. Hver sá sem sést á götum úti eftir það mun læra að virða næsta [útgöngubann]!,“ segir í skilaboðunum sem send voru til íbúa hverfisins. „Við viljum það besta fyrir íbúana. Ef ríkisstjórnin hefur ekki getuna til að bjarga málunum, skipulögð glæpasamtök munu leysa vandann.“

Kórónuveiran sem veldur Covid 19 sjúkdómnum var farin að stinga sér niður í fátæktarhverfum borgarinnar strax um síðustu helgi, en þar er tilfinnanlegur skortur á innviðum til að takast á við hana. Til að mynda skortir hreint vatn, enda í flestum tilfellum ekki pípulagnir í hverunum, sem gerir erfiðara um vik að halda uppi almennu hreinlæti.

„Það er ómögulegt að vera í einangrun. Við erum að tala um svæði þar sem fólk býr í hreysum, þar sem það er enginn möguleiki á að loka sig af frá öðrum. Við erum að tala um hreysi, þar sem í einu rými er eldhús, íverurými og svefnherbergi. Nánast enginn býr einn. Það eru að lágmarki tveir til þrír í hverri fjölskyldu, sem búa sama á rými sem er á stærð við herbergi í venjulegu húsi,“ lýsir Marques á Lusa einn viðmælenda Sabado fréttasíðunnar.