„Nú hefur feng­ist stað­fest­ing á því sem Píratar ótt­uð­ust allt frá því að fjár­mála­á­ætlun rík­is­stjórn­ar­innar var lögð fram; áætlun rík­is­stjórn­ar­innar er í raun bara ágiskun, fjár­munum er skipt niður á mál­efna­svið ráðu­neyta að því er virð­ist handa­hófs­kennt.“

Svona hefst hvöss fréttatilkynning frá þingflokki Pírata sem barst fjölmiðlum fyrr í kvöld, en í henni er fjármálaáætlun fyrir árin 2018 til 2022 harðlega gagnrýnd.

Píratar segja áætlunina vera merki þess að verið sé að biðja Alþingi um að taka ákvörðun án þess að hafa forsendur. Píratar segja það ljóst vegna þess að ekki virðist vera hægt að svara upplýsingabeiðni þeirra um tölur og gögn sem liggja að baki áætluninni. Í yfirlýsingunni segir jafnframt að ástaðan sé einfaldlega sú að gögnin séu ekki til.

Píratar segja jafnframt að ráðherra dragi gögnin í fjármálaáætlunina upp úr hatti:

Takmörkuð greining á einstaka útgjaldaliðum eða fjárþörf einstakra stofnana eða verkefna liggur fyrir. Það má því leggja þessi vinnubrögð að jöfnu við að fjármálaráðuneytið hafi dregið skiptingu fjármuna í fjármálaáætlun upp úr hatti. Ekkert tillit hefur verið tekið til raunverulegrar fjárþarfar stofnana við þessa ágiskun, ófullnægjandi gögn liggja fyrir um kostnað einstakra verkefna sem fjármálaáætlun setur á herðar einstakra stofnana og er þeim því haldið í óvissu um hvort fjármunir fáist í þau verkefni sem þeim hefur verið falið.

Lög um opinber fjármál gera ráð fyrir faglegri úttekt sem undirstöðu fjármálaáætlunar á meðan stjórnarskráin felur löggjafanum fjárveitingarvaldið. Fjármálaáætlun skilur Alþingi eftir í fullkominni óvissu um hvernig framkvæmdarvaldið hyggst ráðstafa fjármunum almennings. Því má leiða líkur að því að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar standist hvorki lög um opinber fjármál né stjórnarskrá.