Haraldur Geir Hlöðversson rekur Seabird and Cliff Adventure í Vestmannaeyjum
Haraldur Geir Hlöðversson rekur Seabird and Cliff Adventure í Vestmannaeyjum
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Nýlega hóf félag Haraldar Geirs Hlöðverssonar, SACA sem stendur fyrir sjófugla og klettaævintýri upp á enska tungu, að bjóða upp á leiðsöguferðir um Bjarnarey í Vestmannaeyjunum. Haraldur, sem er sjálfur ritari úteyjafélagsins sem sér um eyna, vill þannig auðvelda aðgang að mögnuðu lífríki sjófuglanna í eynni.

„Síðustu tvö sumur hef ég verið að útbúa eins konar gönguferð sem við ætlum að bjóða upp á í umhverfi sem einungis hefur verið í boði fyrir vana fjallamenn að fara um áður. Við byggjum á aðferðafræði frá Evrópu sem þekkt er undir ítalska heitinu Via Ferrata, þar sem via þýðir vegur og ferrata er járn, sem á við þegar búið er að strengja stálvíra og höggva þrep og setja stiga utan í þverhnípt bjarg svo þú þurfir ekki að vera einhver klifurmaður til að fara þar um,“ segir Haraldur Geir.

„Ég er svo líka að byrja með bátsferðir hérna um eyjarnar en hvort tveggja stíla ég mest inn á sumarið svo ætli maður fari ekki í gang með þetta fyrir alvöru næsta sumar. Ég er búinn að ýta þessu inn á svona Via Ferrata hópa sem eru til staðar í öllum löndum eiginlega, en markaðssetningin er kannski erfiðasti þátturinn því hitta þarf á þann hóp sem bæði ætti erindi í þetta og hefði áhuga. Ég sé ekki fyrir mér að við munum fá marga ferðamenn sem rétt kíkja við hingað til Eyja og myndu þá allt í einu ákveða að langa að kíkja.“

Haraldur segir ekki þörf á að vera í toppformi til að fara í þessa ferð. „Eiginkona mín er nú ekki íþróttamaður af Guðs náð en hún ákvað að prófa að fara þessa leið og fór hún létt með þetta. Það eru í mesta lagi einhverjir sex til átta metrar sem farið er upp eða niður bjargið. Síðan eru nokkuð breiðar syllur víða sem gengið er eftir, en þú ert alltaf tengdur í líflínu og búnað sem þolir tvö og hálft tonn svo að þótt auðvitað geti alltaf eitthvað komið fyrir þá hraparðu alla vega ekki.“

Túrinn tekur um tíu tíma segir Haraldur. „Í Heimaey fær fólk búnaðinn sem til þarf, hjálm, sigbelti, karabínum, bremsur og svona dótarí og smá kennslu og svo er bátsferð út í Bjarnarey. Þegar upp á eyjuna er komið er farið upp í skála og fengin smá hressing og svo er kúrsinn tekinn suðaustur á eyjuna.

Gangan um bergið sjálft ætti að taka svona tvo og hálfan til þrjá tíma, enda erum við ekkert að flýta okkur. Svo þegar komið er upp úr berginu er skoðunaferð um eyjuna og svo endað í skála þar sem boðið er upp á kvöldverð og loks siglt til Heimaeyjar á ný.

Þetta er engin fjöldaferðamennska, heldur er ég með venjulega fimm manns í hverjum hóp og stíla ég á að fara vikulega. Dagsferðin út í eyju kostar 80 þúsund krónur, en svo bjóðum við styttri og auðveldari klettaferð hér í Heimaey fyrir 20 þúsund.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .