Google hefur ákveðið að leita eftir samstarfi við banka í Bandaríkjunum í því augnamiði að bjóða upp á svokallaða snjallreikninga (e. Smat checking acconts) BBC greinir frá þessu og segir ávinning neytenda felast í notkun á greiningartækni Google til viðbótar við hefðbundna fjármálaþjónustu.

Google fylgir með þessu í kjölfar tæknirisa eins og Facebook, Uber, Apple og Amazon sem nú þegar bjóða upp á greiðslukort, greiðsluþjónustu og neytendalán.

Snjallreikningarnir er ætlað að vera viðbót við Goolge Pay sem fyrirtækið hleypti af stokkunum fyrir nokkru án þess að kerfið hafi náð mikilli hylli í Bandaríkjunum. Viðtökurnar hafa þó verið töluvert góðar í löndum á borð við Indland þar sem könnun leiddi í ljóð að helmingur svarenda hafði notað kerfið á síðustu tólf mánuðum.

Innrás tæknifyrirtækja inna markaðinn með fjármálaþjónustu vekur upp spurningar um framtíð hefðbundinna banka. BBC segir að bankar hafi nýlega vaknað úr værum blundi og áttað sig á hve hratt breytingar eigi sér nú stað. Fyrir vikið leggi þeir nú mun meiri áherslu á samstarf við minni tæknifyrirtæki sem og tæknirisanna í leit að nýjum tilverugrundvelli í veröld öra tæknibreytinga.