Hugbúnaðarfyrirtækið GoPro hagnaðist um 105,4 milljónir á síðasta ári samanborið við 120,7 milljónir árið 2020. Tekjur félagsins námu 934,5 milljónum króna en sala dróst saman 15% og var um 778,8 milljónir. Félagið ákvað að greiða út 10 milljónir vegna síðasta rekstrarárs.

GoPro samstæðan samanstendur af hugbúnaðarfyrirtækjum Hugviti og Canalix. Bæði fyrirtækin þróa og selja hugbúnað fyrir mála- og skjalastjórnun, hvort á sínu sviði. Hugvit einbeitir sér að þróun skýjalausna fyrir millistór fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög, hérlendis og erlendis en Canalix að reglustýrðum ferlum fyrir stórar stofnanir, eingöngu fyrir erlendan markað. Um 60 starfsmenn starfa hjá GoPro samstæðunni sem er með viðskiptavini í átta löndum.

Sjá einnig: Uppsker eins og það sáir

Í skýrslu stjórnar í nýbirtum ársreikningi segir að reksturinn hafi verið stöðugur á síðasta ári  Á undanförnum misserum hafi þó verið neikvæð áhrif af völdum Covid-19 á sölutekjur samstæðunnar og þá sérstaklega á vinnusölu.

Fyrirtækið lítur á rannsóknir og vöruþróun sem lykilþáttur í starfseminni og fjárfestingar samstæðunnar í þróun kerfa nam 187 milljónum á síðasta ári samanborið við 141 milljón árið 2020. Fram kemur að samstæðan hafi fjárfesti í starfsemi dótturfélaga í Danmörku, Englandi og í Bandaríkjunum og unnið að uppbyggingu og sókn á erlendum mörkuðum.

Eignir GoPro námu 1.159 milljónum í árslok 2021. Eigið fé var um 928 milljónir og eiginfjárhlutfallið var því um 80%.

Í febrúar var tilkynnt um kaup framtakssjóðsins Horn IV á 35% hlut í GoPro og er sjóðurinn nú stærsti einstaki hluthafi félagsins. Við kaupin voru annars vegar keyptir hlutir af núverandi hluthöfum ásamt því að hlutafé GoPro var hækkað. Fram kom að nýta á fjármögnunina við uppbyggingu, þar á meðal á sölu- og markaðsstarfi á alþjóðlegum mörkuðum og fyrir nýjar lausnir félagsins sem hafa verið í þróun undanfarin ár.