„Það sem breytist hjá mér er fyrst og fremst að ég verð í meiri samskiptum við stjórn og eigendur sem og ýmsa samráðsvettvanga um úrgangsmál á Íslandi, þar sem Sorpa er í lykilhlutverki," segir Jón Viggó Gunnarsson, nýr forstjóri Sorpu, en hann hefur starfað hjá fyrirtækinu síðan í mars.

„Það er mikill heiður að fá að taka við af Helga Þór Ingasyni sem tók við tímabundið í apríl en hann hefur unnið gríðarlega gott starf við að leiða þá gjörbreytingu sem við erum að fara í á viðskiptamódeli fyrirtækisins. Fyrir okkur vakir að Sorpa skili miklu virði til framtíðar samhliða því að við erum að hætta að urða og fara að skila meira af hráefnum aftur inn í efnahagshringrásina."

Síðustu ár hefur Jón Viggó starfað í ýmsum stjórnunarstörfum til að mynda hjá CCP, RB og EJS auk þess að hafa í millitíðinni stofnað gagnaversfyrirtækið sem seinna varð Advania Data Center, sem nýlega varð atNorth. Viðurkennir hann að skrefið úr tæknigeiranum yfir í ruslið geti sumum þótt skrýtið.

„Í sjálfu sér eru þó allar svona fyrirtækjaeiningar kerfi sem þurfa að skila virði svo þetta snýst um að skilja vel virðiskeðjuna sem er reynsla sem hægt er að flytja á milli fyrirtækja. Í grunninn eru þetta sömu verkefnin og ég hef lengi verið að sinna, mannauðs- og rekstrarmál, samningar, innkaup og stefnumótun og innleiðing hennar," segir Jón Viggó sem spurður var um tilurð Thor Data Center.

„Í upplýsingatæknigeiranum fylgdist maður mikið með ævintýrum Verne Global við að reyna að koma á fót gagnaversiðnaði hér á Íslandi svo ég og félagi minn, Árni Rafn Jónsson, ákváðum að vera fyrri til. Hugmyndin var að vera með staðlaðar gámalausnir sem hægt var að selja aftur, sem lágmarkaði áhættu fjárfesta á á erfiðum tímum. Við sömdum við Opera Software og fórum í hlutafjáraukningu þar sem Skúli Mogensen og fleiri komu inn, en síðar kom upp óeining í hluthafahópnum svo við seldum."

Jón Viggó er giftur Ástríði Elínu Jónsdóttur, sérfræðingi hjá fjármálaráðuneytinu, og á hann fimm börn og þrjú stjúpbörn. „Þau dreifast frá 7 ára aldri til 32 ára. Ég er fæddur 1969 en flyt til Ísafjarðar með foreldrum mínum 1970. Pabbi býr enn fyrir vestan og við reynum að heimsækja hann svona fjórum til sex sinnum á ári sem er mjög ljúft enda góður staður til að vinda úr sér stressið," segir Jón Viggó.

„Utan vinnu fer ég töluvert á gönguskíði sem ásamt skíðum almennt er arfleifð að vestan og svo tókum við konan upp á því að skrá okkur í fjallahlaupaklúbb FÍ og erum við nú að æfa okkur fyrir Laugavegshlaupið. Við höfum verið í götuhlaupum en þau eru svo leiðinleg, utanvegahlaup eru miklu fjölbreyttari og skemmtilegri."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .