Græn og félagsleg skuldabréf ryðja sér nú hratt til rúms á Íslandi. Fyrir ári voru engin slík bréf til í íslenskum krónum, en í dag er heildarupphæð þeirra um 26 milljarðar króna og ef horft er framhjá sértryggðum skuldabréfum bankanna og ríkisbréfum nema þau um fjórðungi markaðarins.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra benti nýlega á mikilvægi grænna skuldabréfa í baráttunni við loftslagsvána og nefndi þar þjóðarsjóði, lífeyrissjóði og ríkissjóði sérstaklega, sem jafnvel gæti komið til álita að skylda að einhverju leyti til að fjárfesta í slíkum bréfum.

Útgáfan eykst einnig hratt á heimsvísu og í lok október voru útistandandi græn og félagsleg bréf um allan heim fyrir ígildi yfir 24 þúsund milljarða króna, eða um 2% af markaðnum. Algengustu tegundir slíkra bréfa eru grænar fasteignir og endurnýjanleg orkuvinnsla, og stærstu útgefendur yfirþjóðlegar fjármálastofnanir, fasteignafélög og sveitarfélög.

Ítarleg en ósamræmd skilyrði
Skilyrðin sem útgefendur þurfa að uppfylla – og veita reglulegar áframhaldandi upplýsingar um út líftíma bréfsins – til að hljóta græna eða félagslega vottun eru fjölbreytt. Ýmsar áskoranir fylgja innreið þeirra, en ein sú stærsta er sú að ekki eru til nægjanlega ítarlegar samræmdar skilgreiningar á því hvað gerir skuldabréf græn eða félagsleg. „Án skýrra reglna myndast hætta á svokölluðum grænþvotti. Að menn setji grænt blek í prentarann og gefi út grænt skuldabréf, án þess að innistæða sé til,“ segir Andri Guðmundsson, sérfræðingur í grænum og félagslegum skuldabréfum hjá Fossum mörkuðum.

Evrópusambandið til bjargar
Þetta stendur þó til bóta. „Hér kemur Evrópusambandið til bjargar, en það er búið að vera að vinna núna um árabil í að setja ramma utan um sjálfbær fjármál, meðal annars með því að setja Evrópuskilgreiningu fyrir ramma utan um græna skuldabréfamarkaðinn. Það liggur ekki fyrir enn hvenær á honum er von, en hann er búinn að vera í vinnslu núna í nokkur ár. Það verða síðan þær reglur sem munu gilda fyrir okkur hérna á Íslandi.

Sem dæmi verður bara Evrópuskilgreining í samhengi grænna skuldabréfa á því hvað eru grænar byggingar, hvernig á að mæla það, og svo framvegis,“ segir Andri, en skilgreiningarnar miðast við það markmið að nettóútblástur gróðurhúsalofttegunda verði orðinn að engu árið 2050.

Flókin vandamál krefjast flókinna lausna
Annað vandamál er sú einföldun að skuldabréf séu annaðhvort græn eða ekki græn, félagsleg eða ekki félagsleg, enda heimurinn flóknari en svo að skipta megi atvinnulífinu eins og það leggur sig í slíka almenna og einfalda flokka. „Viljum við að allir nái að bæta sig svolítið, eða viljum við einblína á þessa fáu sem geta bætt sig rosalega mikið? Það eru allskonar svona sjónarmið. Það getur verið gott að vera með mjög afmarkaðan ramma, en í því felast einnig ókostir. Ef við tökum umhverfisvottanir á byggingum sem dæmi, eru það mjög breiðar sjálfbærnivottanir. Þótt orkunotkun vegi þyngst er það bara einn af tíu flokkum. Meðal annars er horft til þess hversu mikið dagsljós er í byggingunum svo starfsfólkinu líði vel þar. Það er gott og gilt markmið í sjálfu sér, en hefur ekkert með loftslagsbreytingar að gera.“

Augljósasta lausnin á þessu felst í flóknari einkunnagjöf, þótt auknu flækjustigi fylgi auðvitað auknar hættur og ókostir. Að einhverju leyti er að þróast slíkur stigsmunur vottana á markaðnum. „Einn norskur vottunaraðili veitir þrjú mismunandi stig af grænum vottunum: ljósgrænt, grænt, og dökkgrænt, eftir því hvar þú lendir á skalanum. Þessar misgóðu vottanir eru svo veittar bæði heilt yfir fyrir hvern útgefanda og í hverjum verkefnaflokki fyrir sig, svo fjárfestar sem leggja sérstaka áherslu á ákveðna þætti geta handvalið þau bréf sem falla best að þeirri hugsjón.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .