Breski seðlabankinn gæti lent í basli vegna nýfallins dóms þar ytra. Ástæðan fyrir klandrinu er sú að dýrafita er notuð við framleiðslu hluta seðlanna sem eru í umferð þar ytra.

Á fyrstu dögum ársins féll dómur í Bretlandi þar sem dómstóll komst að þeirri niðurstöðu að „siðferðislegur veganismi“ nyti sömu verndar og trúar- og lífsskoðanir. Það er ekki mætti segja einstaklingi upp störfum á grundvelli þess að hann væri vegan líkt og ekki mætti segja honum upp fyrir að vera gyðingur eða hindúi.

Málið snerist um Jordi Casamitjana, 55 ára Spánverja, sem rekinn var úr starfi, að eigin sögn, vegna „siðferðislegs veganisma“. Fyrirtækið byggði varnir sínar hins vegar á því að Casamitjana hefði staðið sig illa í starfi.

Sjá einnig: Nýr tíu punda seðill kynntur til sögunnar

Í því að vera „siðferðislegur veganisti“ (e. ethical vegan) felst ekki aðeins að sleppa því að borða dýraafurðir heldur einnig að reyna að eyða dýraafurðum úr lífi sínu og forðast það að skaða dýr. Sé dæmi tekið af Casamitjana þá gengur hann allar vegalengdir sem eru í innan við klukkutíma göngufæri. Með því tryggir hann að hvorki flugur né fuglar verði á vegi strætisvagnsins eða bílsins sem hann tæki ella.

Eftir að dómurinn féll hafa lögspekingar ytra velt því upp hvort einstaklingar geti reynt að láta taka fimm og tíu punda seðla úr umferð. Ástæðan er sú að við framleiðslu seðlanna er tólg notuð til að gera fölsurum erfiðara um vik að búa til eftirlíkingar af þeim. Þá hefur tólgin það í för með sér að seðlarnir verða mýkri, meðfærilegri og hrinda frekar frá sér vatni.

Sjá einnig: Breska pundið verður ekki vegan

„Þessi notkun dýraafurða gæti verið nokkuð áhugavert mál er varðar mismunun. Ef við tökum dæmi af Jordi þá notar hann ekki fimm eða tíu punda seðla ef hann mögulega kemst hjá því,“ hefur Telegraph eftir lögmanninum Peter Daly en hann kom að flutningi málsins fyrir Casamitjana. „Þetta vekur upp áhugaverðar spurningar. Mögulega gæti einhver höfðað mál gegn sjálfum seðlabankanum.“