Viðsnúningur varð í kauphöllinni í dag. Eftir 2% lækkun úrvalsvísitölunnar í gær hækkaði vísitalan um 0,89% í viðskiptum dagsins. Mest hækkaði Skel fjárfestingafélag um 3,5%, þó ekki í nema 11 milljóna króna viðskiptum. En Skel lækkaði mest allra félaga í gær eða um 5,5% í gær en þó ekki í nema 15 milljóna viðskiptum.

Þá hækkaði Arion banki um 2,4% og Origo um 2,1% og Reitir um 2%. Alls hækkuðu 12 af 20 félögum á aðalmarkaði í viðskiptum dagsins en 3 lækkuðu. Brim lækkaði um 2,6%, Festi um 1,3% og Sjóvá um 0,5%.

Alls nam veltan með hlutabréf í Kauphöllinni 5,4 milljörðum króna en mest var veltan með Arion banka, eða 1,5 milljarða króna, veltan með bréf Íslandsbanka nam um 924 milljónum króna. Gengi bréfa Íslandsbanka hækkaði um 0,3% og stendur í 124,8 krónum á hlut.

Gengi bréfa Icelandair stóð í stað í 1,95 krónum á hlut í 187 milljóna króna viðskiptum.

Úrvalsvísitalan stendur nú í 2.995 stigum og hefur lækkað um 11,8% frá áramótum.

Vaxtaákvörðun Seðlabankans verður kynnt í fyrramálið sem vænta megi að lita muni hlutabréfamarkaði á morgun.