Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur heimilað kaup Ferðaskrifstofu Íslands, FÍ, á rekstri Heimsferða. Í tilkynningu SKE segir að Arion banki, sem einaðist Heimsferðir árið 2019, muni áfram fara með stóran eignarhlut í sameinuðu fyrirtæki. Kaupin fá heimild á grundvelli sáttar sem FÍ og Heimsferðir gerðu við eftirlitið.

Í ákvörðun SKE segir að þrjár stærstu innlendu ferðaskrifstofurnar höfðu á árunum 2018-2019 á bilinu 75-80% markaðshlutdeild á markaði fyrir sölu pakkaferða frá Íslandi. Með kaupum FÍ á Heimsferðum fækki þessum þremur ferðaskrifstofum í tvær. Þá kemur fram að sameinað félag FÍ og Heimsferða verði stærsta fyrirtækið á markaðnum fyrir pakkaferðir með 45-50% markaðshlutdeild miðað við veltu á árunum 2018-2019.

Þar að auki hafa verið rík eigna- og viðskiptatengsl milli þriðja stóra keppinautarins (VITA/Icelandair) og FÍ, sem nú kaupir rekstur Heimsferða. Því hafi áform samrunaaðila að óbreyttu í sér mikla samþjöppun, auk þess sem hætta var á verulegri samhæfingu milli stærstu keppinauta, að mati SKE.

Sameinað fyrirtæki hefur því skuldbundið sig til að tryggja sjálfstæði þess gagnvart Icelandair-samstæðunni með því að girða fyrir viðskipti milli fyrirtækjanna nema í nánar skilgreindum tilvikum. Einnig verði eignatengsl á milli sameinaðs fyrirtækis og Icelandair rofin innan tiltekins tímafrests og girt fyrir beitingu atkvæðisréttar þangað til.

Þá skuldbindur sameinað fyrirtæki sig til að gefa öðrum ferðaskrifstofum færi á að nýta sætaframboð í flugi á vegum sameinaðs fyrirtækis með heildsölu á flugsætum. „Með því er keppinautum, og þar með neytendum, gefinn kostur á að njóta mögulegrar hagkvæmni sem af samrunanum getur hlotist að mati samrunaaðila.“ Ferðaskrifstofustarfsemi á vegum Icelandair nýtur ekki þessara réttinda.

Þarf að selja hlut sinn í Icelandair innan þriggja ára

Ferðaskrifstofa Íslands er í eigu Pálma Haraldssonar. Sem hluti af sáttinni hefur Pálmi skuldbundið sig til að selja allan eignarhlut sinn í Icelandair innan þriggja ára en hann er áttundi stærsti hluthafi flugfélagsins í gegnum félagið Sólvöll með 1,66% hlut sem er um 1,3 milljarðar að markaðsvirði.

Andri Már Ingólfsson, eigandi ferðaskrifstofunnar Aventura, skrifaði harðorða grein fyrr í mánuðinum og kallaði eftir því að SKE kæmi í veg fyrir kaupin þar sem sameiginlegt félag myndi búa yfir 65% markaðshlutdeild. Hann hélt því einnig fram að búið væri að samþætta rekstur FÍ og Heimsferða þrátt fyrir að niðurstaða eftirlitsins hafi ekki legið fyrir.