Rútufyrirtækið Allrahanda Gray Line ehf. (AGL) hefur lagt fram frumvarp að nauðasamningi en greiðsluskjól félagsins rennur út á morgun , föstudaginn 25. júní. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um hvernig AGL ætlar að efna nauðasamninginn á næstu þremur árum. Umfjöllunin byggir á spá um komu ferðamanna til landsins á greiðslufreststímabilinu og sögulegum gögnum um rekstrarafkomu á mánuðunum áður en faraldurinn teygði anga sína hingað til lands.

Sjá einnig: Allrahanda tapaði 700 milljónum

„Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði Atla Björn Þorbjörnsson lögmann umsjónarmann með nauðasamningsumleitunum AGL. Umsjónarmaðurinn segir í afstöðu sinni til frumvarpsins að hann telji eðlilega og ásættanlega mælikvarða styðja áætlanir félagsins um efndir nauðasamnings. " segir í tilkynningunni.

Tekjurnar féllu um 97%

Áætlun AGL gerir ráð fyrir að innan þriggja ára verði búið að gera upp við alla almenna kröfuhafa að fullu og hefja afborganir af veðtryggðum skuldum. ALG var meðal fyrstu fyrirtækja í ferðaþjónustunni til að óska eftir greiðsluskjóli og féllu tekjur þess um 97% nánast á einum degi. Þá reyndist erfitt að fá greiddar útistandandi kröfur á hendur öðrum fyrirtækjum í ferðaþjónustu.

Auk greiðsluskjólsins hefur AGL þurft að nýtt sér úrræði stjórnvalda og grípa til hagræðingaaðgerða líkt og að selja eignir og fækka starfsfólki, en því fækkaði úr 120 í fimm starfsmenn í hlutastarfi. „Án þessara aðgerða hefði félagið að öllum líkindum orðið gjaldþrota sumarið 2020."

Hluti starfseminnar færð inn í annað félag

„Í rekstraráætlun fyrir endurreisn AGL er markaðs- og sölustarfsemin færð yfir í félagið GL Iceland ehf. (GLI) í eigu sömu aðila og AGL. Félagið GLI mun annast sölu og markaðsmál fyrir Gray Line og kaupa þjónustu af AGL í takt við þau umsvif sem vænta má þegar ferðamönnum fjölgar að nýju. Hluthafar hyggjast leggja félögunum til fé til þess að koma rekstrinum af stað.

Með þessu móti er verið að tryggja eiginfjárstöðu markaðs-og sölustarfsins og gera GLI kleift að afla af krafti viðskipta sem AGL mun svo hafa einkarétt á að þjónusta með akstri og leiðsögn.  Þjónustusamningur GLI og AGL miðar að því að rekstrarafgangur samkvæmt áætlun beggja félaga á greiðslufreststíma skili sér alfarið til AGL til efnda á nauðasamningnum."