Ferðaþjónustufyrirtækin Allrahanda GL ehf og Reykjavík Sigthseeing Invest ehf hafa sent Samkeppniseftirlitinu greinargerð um fyrirhugaða sameiningu á næstu mánuðum.

Fyrirtækin áforma að sameina rekstur sinn í áætlunarakstri til og frá Keflavíkurflugvelli, svo og í afþreyingarferðum og hópferðum. Sameiningin er með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar.

Starfsemi Allrahanda GL er rekin undir vörumerkjunum Gray Line og Airport Express. Vörumerki Reykjavík Sigthseeing Invest eru Airport Direct, Reykjavík Sightseeing og SmartBus.

Meginástæðan fyrir ákvörðun eigenda fyrirtækjanna um sameiningu er óhagstæð rekstrarskilyrði sem hafa leitt til óviðunandi afkomu. Þar vegur þyngst hækkun launakostnaðar og annars rekstarkostnaðar.

Þó svo að dregið hafi lítillega úr styrk krónunnar, þá vegur það ekki upp á móti þeirri fækkun ferðamanna sem við blasir. Þá er mikil samkeppni á þessum vettvangi og fyrirséð að hún muni harðna enn frekar.

Hjá báðum fyrirtækjum hefur verið ráðist í miklar hagræðingaraðgerðir undanfarin misseri. Það hefur þó ekki dugað til að vega upp á móti versnandi stöðu. Eigendur telja því ábyrgt og skynsamlegt að ráðast í sameiningu til að stuðla að sjálfbærni rekstrarins.