Allrahanda GL ehf. leyfishafi Gray Line á Íslandi tapaði 516 milljónum króna á síðasta ári og jókst tap félagsins um 321 milljón milli ára samkvæmt ársreikningi félagsins. Tekjur námu 3.090 milljónum króna síðasta ári og lækkuðu um tæplega milljarð króna frá árinu á undan. Tekjur af seldum ferðum og þjónustu námu 3.032 milljónum króna og lækkuðu um tæplega 700 milljónir auk þess sem aðrar tekjur námu 58 milljónum og lækkuðu um 244 milljónir milli ára.

Raunar nam tap af reglulegri starfsemi 528 milljónum króna þar sem áhrif dótturfélaga voru jákvæð um samtals 12 milljónir en voru neikvæð um 47 milljónir á sama tíma í fyrra. Afkoma af reglulegri starfsemi versnaði því um 380 milljónir króna á milli ára.

Hlutafé aukið um 200 milljónir

EBITDA félagsins var neikvæð um 318 milljónir króna á árinu sem er neikvæður viðsnúningur um 404 milljónir frá fyrra ári. Þá nam rekstrartap (EBIT) 488 milljónum króna og jókst um 379 milljónir milli ára. Launakostnaður félagsins nam 1.715 milljónum króna á árinu og lækkaði 222 milljónir milli ára. Sé hins vegar litið á launakostnað sem hlutfall af heildartekjum var hlutfallið 56% á árinu og hækkaði um 8 prósentustig á milli ára.

Eignir félagsins námu rúmum 2,5 milljörðum í lok árs og lækkuðu um 144 milljónir milli ára. Skuldir félagsins voru 2.033 milljónir í lok ársins og jukust um 75 milljónir milli ára. Fram kemur í sjóðstreymisyfirliti að félagið hafi tekið nýtt langtímalán að upphæð 1.341 milljón en hafi einnig greitt 1.218 milljónir af langtímaláni.

Eigið fé félagsins nam 472 milljónum í lok árs en hlutafé var aukið á árinu um 200 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall var 19% í lok árs og lækkaði um 7 prósentustig á milli ára.

Lífeyrissjóðir stórir eigendur

Í ársreikningnum kemur fram að á miðju ári 2018 hafi stjórnendur félagsins farið í endurskipulagningu á rekstri þess með það að markmiði að jafna rekstrarhalla. Sú vinna hafi haldið áfram á þessu ári og eigi að koma til með að skila hagstæðri afkomu. Þá kemur einnig fram að á þessu ári hafi hluthafa félagins komið með aukið fjármagn inn í félagið auk þess sem samningar við viðskiptabanka þess séu í vinnslu um endurskipulagningu lána.

Eigendur félagsins eru framtakssjóðurinn Akur með 49% hlut en sjóðurinn er í rekstri Íslandssjóða og er að mestu í eigu innlendra lífeyrissjóða. Þá eiga Þórir Garðarson stjórnarformaður félagsins og Sigurdór Sigurðsson framkvæmdastjóri þess 25,5% hlut hvor en þeir eru jafnframt stofnendur fyrirtækisins.

Í júlí á þessu ári var greint frá því að Allrahanda GL og Reykjavík Sightseeing Invest, sem rekur vörumerkin Airport Direct, Reykjavík Sightseeing og SmartBus, hefðu sent Samkeppniseftirlitinu greinargerð um fyrirhugaða sameiningu á næstu mánuðum. Í tilkynningunni kom fram að megin ástæðan fyrir ákvörðuninni um sameiningu væru óhagstæð rekstrarskilyrði sem leitt hafi til óviðunandi afkomu.